Flest eldri börnin á heimili SPES í Lomé áttu þess kost að dvelja á einkaheimili vina eða ættingja í 2 vikur í sumarfríinu. Þau börn sem hafa einhver tengsl við ættingja gátu sum dvalið hjá þeim en SPES greiddi fyrir fæði. Þá fengu sum barnanna að dvelja á einkaheimilum starfsfólks eða ættingja þeirra og margir meðlimir í SPES Togó buðu barni að dveljast hjá sér þennan tíma. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert en markmiðið er að gefa börnunum kost á að kynnast venjulegu Togósku heimili um leið og þau fá tilbreytingu og hvíld frá fjölmennu barnaheimili. Við höfum lengi reynt að koma á tengslum við „vinafjölskyldur“ í þessum tilgangi. Þetta virðist hafa gengið vel þó enn hafi ekki borist sérstök umsögn.
Í sumarfríinu fóru grunn- og miðskólabörnin á sumarnámskeið þar sem kenndar voru venjulegar skólagreinar hálfan daginn. Það fór fram í einkaskóla í nágrenninu.
15 börn frá heimilinu í Lomé, sem ekki áttu kost á að dvelja hjá vinafjölskyldu í sumarleyfi, fóru og dvöldu á heimili SPES í Kpalimé. Var það mikil tilbreyting og skemmtun fyrir jafnt börnin í Kpalimé sem börnin frá Lomé. Þau fóru í leiðangra um nágrennið og gafst tækifæri til að uppgötva náttúruna í sveitinni, og gróðursældina á heimilinu sjálfu. Heimilið er ekki fullbyggt og er auk þess á stórri lóð svo þar fer fram veruleg ræktun ávaxta og grænmetis.
Í vor og sumar dvöldu á heimilinu í Lomé 5 nemar frá Evrópu og einn frá Bandaríkjunum, 1-2 vikur í senn. Þetta voru sjálfboðaliðar og þau aðstoðuðu við þau störf sem til féllu en einkum aðstoðuðu þau tómstundakennarann. Flest voru þau 3 í einu. Börnin eru mjög ánægð með að kynnast þessu fólki og nemarnir, sem gefa skýrslu um dvöl sína, fagna þessu einstaka tækifæri.