Loading...
Forsíða

ALLIR ERU VELKOMNIR Í SPES FJÖLSKYLDUNA

Þú getur breytt heiminum –  fyrir barn, sem á fárra kosta völ.

Þegar þú ákveður að taka þátt í starfi SPES, tekur þú að þér að styðja barn og gefa því framtíð. Hér fyrir neðan eru nokkrar algengar spurningar og svör við þeim. Hikaðu ekki við að senda okkur skilaboð á Facebook eða í tölvupósti.

Við erum ein stór fjölskylda. Velkomin í hópinn.

Hvert renna peningarnir?

Allt fé sem SPES safnar og foreldrar leggja til rennur að fullu til barnaþorpanna í Tógó. SPES er hugsjónafélag og allt stjórnarstarf er unnið í sjálfboðavinnu. Skrifstofu- og umsýslukostnaður er enginn og stjórnarmenn kosta allar ferðir til Tógó sjálfir. Allt fé sem berst rennur því beint til barnanna og til byggingarframkvæmda við heimilin.

Heimamenn í Tógó taka virkan þátt í stjórn SPES og halda utan um rekstur heimilanna í sjálfboðavinnu, en einungis starfsfólk á heimilunum fá greidd laun fyrir vinnu sína. Lögð er áhersla á að líf barnanna sé eins eðlilegt og kostur er og því er greitt fyrir leikskólapláss fyrir yngstu börnin og hin eldri ganga í almenna skóla í hverfinu. Þannig tengjast börnin betur umhverfi sínu og menningu og með styrkjum til skólanna njóta fleiri börn ávinnings af söfnunarstarfi SPES.

Af þeim 80 evrum sem franfærsla hvers barns kostar á mánuði, fara 10 evrur í sérstakan menntunarsjóð, sem er eins konar framtíðarsjóður. Er honum ætlað að kosta frekara nám, hvort heldur sem það er háskólanám eða iðnnám, og auðvelda þeim að hefja sjálfstætt líf.

 

Um Tógó

Tógó er smáríki í Vestur-Afríku, milli Ghana í vestri og Benín í austri, um það bil helmingi minna en Ísland með tæplega 8 milljón íbúa. Fyrrverandi frönsk nýlenda sem fékk sjálfstæði 1960. Stjórnskipan er lýðveldi með aðskilnaði framkvæmda- og löggjafarvalds. Forseti er þjóðkjörinn og myndar ríkisstjórn, en ráðherrar mega ekki sitja á þingi.

Helstu atvinnuvegir eru landbúnaður og námagröftur (fosfat, kalksteinn, marmari, salt). Fátækt er mikil en hefur aðeins minnkað á síðustu árum; meðalárstekjur samsvara 1.500 Bandaríkjadölum. Lífslíkur eru nú 65 ár, um 67% eru læs og skrifandi (15 ára og eldri).

Trúarbrögð eru hefðbundin náttúrutrú (50%), kristni (30%), islam (20%).

Þjóðin er friðsöm, vingjarnleg og gestrisin.

Almennir félagsmenn

Almennur félagsmaður greiðir árgjald sem er að lágmarki ISK 5.000. Hann fær þá sendar fréttir og upplýsingar, er boðaður á aðalfund og aðrar samkomur ef haldnar eru og tekur þátt í stjórnarkjöri.

Árgjald er greitt með einfaldri innlögn á reikning SPES alþjóðlegar barnahjálpar:
342-26-2200 kt. 471100 2930

Þú getur hvenær sem er gengið til liðs við SPES. Skráðu þig með því að hafa samband á Facebook, nýtt þér skráningaformið hér á vefsíðunni eða senda mail á bera@vortex.is

Styrktarforeldrar

Full framfærsla barns ásamt 10€ í menntunarsjóð er 80€ á mánuði eða jafnvirði í íslenskum krónum.

Gert er ráð fyrir að fólk ætli sér að styrkja barnið þar til það er 18 ára. Með styrknum elur þú í raun önn fyrir barninu þínu og styrkir til menntunar og sjálfstæðis á fullorðins árum. Þú færð reglulega fréttir af barninu þínu, myndir og aðrar upplýsingar og getur ef þú vilt sent barninu kveðjur, gjafir og upplýsingar.

Það er hægt að taka þátt í framfærslu barns að hluta til og fá samt tengingu við ákveðið barn, myndir og aðrar upplýsingar.

Styrktarforeldrar eru sjálfkrafa félagsmenn í SPES án sérstaks árgjalds.

Sá sem bjargar einu barni bjargar mannkyninu. SPES þarf á þér að halda. Skráðu þig í dag.

NÝJUSTU FRÉTTIR