togo-born

 

SPES er hugsjónafélag og allt stjórnarstarf er unnið í sjálfboðavinnu. Skrifstofu- og umsýslukostnaður er enginn og stjórnarmenn kosta allar ferðir til Tógó sjálfir. Allt fé sem berst rennur því beint til barnanna og til byggingarframkvæmda við heimilin.

Heimamenn í Tógó taka virkan þátt í stjórn SPES og halda utan um rekstur heimilanna í sjálfboðavinnu en einungis starfsfólk á heimilunum fá greidd laun fyrir vinnu sína. Lögð er áhersla á að líf barnanna sé eins eðlilegt og kostur er og því er greitt fyrir leikskólapláss fyrir yngstu börnin og hin eldri ganga í almennan skóla í hverfinu. Þannig tengjast börnin betur umhverfi sínu og menningu og með styrkjum til skólanna njóta fleiri börn ávinnings af söfnunarstarfi SPES.

Um Tógó

Tógó er smáríki í Vestur-Afríku, milli Ghana í vestri og Benín í austri, um það bil helmingi minna en Ísland með tæplega 8 milljón íbúa. Fyrrverandi frönsk nýlenda sem fékk sjálfstæði 1960. Stjórnskipan er lýðveldi með aðskilnaði framkvæmda- og löggjafarvalds. Forseti er þjóðkjörinn og myndar ríkisstjórn, en ráðherrar mega ekki sitja á þingi.

               Helstu atvinnuvegir eru landbúnaður og námagröftur (fosfat, kalksteinn, marmari, salt). Fátækt er mikil en hefur aðeins minnkað á síðustu árum; meðalárstekjur samsvara 1.500 Bandaríkjadölum. Lífslíkur eru nú 65 ár, um 67% eru læs og skrifandi (15 ára og eldri).

Trúarbrögð eru hefðbundin náttúrutrú (50%), kristni (30%), islam (20%).

               Þjóðin er friðsöm, vingjarnleg og gestrisin.

Pin It