Þrír vaskir og bráðungir félagar halda þriðjudaginn 18. júlí hjólandi af stað hringinn í kringum landið til styrktar Spes. Þeir stefna á að koma aftur til höfuðborgarinnar í lok verslunarmannahelgarinnar þann 7. ágúst eftir að hafa kynnt starfsemi Spes víðs vegar um landið.

Félagarnir þrír eru þeir Gísli Hvanndal Ólafsson, Guðjón Heiðar Valgarðsson og Dagbjartur Ingvarsson. Gísli er ljóðskáld, en Guðjón og Dagbjartur skipa saman hljómsveitina Palindrome, sem þeir lýsa sjálfir sem rólegri kassagítartónlist í anda Bob Dylans.

Þrímenningarnir ætla að halda safna fé og kynna starfsemi Spes í Afríku með því að halda opnar samkomur með tónleikahaldi og ljóðalestri á áfangastöðum sínum um landið. Ókeypis verður inn en gestir hvattir til að láta af höndum rakna til Spes.

„Við viljum hvetja fólk til að kynna sér starfsemi Spes-samtakanna sem við teljum afar merkilegt og þarft framtak,“ sagði Gísli í stuttu spjalli við heimasíðu Spes. „Peningarnir sem við söfnun renna beint til félagsins, en okkur finnst alltof fáir vita af þeim. Við ætlum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að kynna samtökin með ferðinni.“

Félagarnir fara suðurleiðina, og áforma að vera á Höfn þann 24. júlí, á Kárahnjúkum 28. júlí, á Akureyri 31. ágúst, og á Blönduósi 3. ágúst svo nokkrir áfangastaðir séu nefndir.

Hægt er að fylgjast með ferð þeirra á www.speshringur.net og hvetjum við ykkur til að styðja við bakið á þessum dugnaðarpiltum.