Kæru SPES vinir
Við Bera erum nýlega komin heim frá Tógó. Með okkur fóru íslenskir styrktarforeldrar, ung stúlka frá Ísafirði, sem verður í þrjá mánuði í sjálfboðaliðsstarfi í barnaþorpinu, og Anna Margrét Björnsson blaðakona á Fréttablaðinu. Á sama tíma var hópur frá Spes í Frakklandi og annar frá Belgíu, samtals meira en 20 manns. Þetta var of fjölmennt og hafði truflandi áhrif á daglegt líf barnanna. Ég sagði Frökkum og Belgum að forðast þettaí fram-tíðinni,og skipuleggja ferðir í samráði við aðra.

Börnin
Annars líður börnunum öllum vel, heilsufar er ágætt og allt í góðu lagi í öllum aðalatriðum. Við Claude Voileau töluðum hins vegar við forstöðukonuna Immaculée og fóstrurnar og bentum á eitt og annað sem við vildum láta færa til betri vegar. Því var vel tekið og verður lagfært. Þetta snýr að skipulagi og umönnun. Við viljum að fóstrurnar séu meira með börnunum á virkari hátt og verði þeim til hvatningar og uppörvunar, en okkur fannst skorta á að ýtt sé undir skapandi leik og frumkvæði. Við ræddum líka um refsingar, en í Tógó er oft slegið til barna. Við viljum það ekki, og hvöttum til frekari umbunar þegar vel er gert, og að refsa frekar með skammarkrók, sem þær könnuðust ekki við. Þá vildum við að börnin væru sjaldnar öll í einni kös, 78 talsins, heldur væri þeim skipt í hópa eftir aldrei. En þetta eru ekki stórvægileg vandamál. Rétt áður en við komum, bættust tvö systkin í hópinn, fjögurra ára telpa og tveggja ára drengur, frá norður Tógó af ættflokki Kabye svo að þau gátu lítið talað í fyrstu, enda töluð éwe í Lomé (réttara sagt mállýskan mina). Þau hafa bæði fengið íslenska styrktarforeldra. Daginn áður en við fórum bættust svo tveir drengir í hópinn, 5 ára og 2ja ára og fá franska styrktarforeldra. Þar með eru börnin orðin 78. Fjögur önnur eru á leiðinni, 2ja ára stúlka og þrjú nýfædd börn, enn of ung til að koma til okkar. Þau eru hjá nunnum á vöggustofu og koma til okkar eftir ca. þrjá-fjóra mánuði, ef allt gengur vel. Á stjórnarfundi með SPES-Togo var ákveðið að breyta aldurskröfum þannig að heimilt væri að taka börn allt að fimm ára aldri, vegna tilmæla heimamanna.

Framkvæmdir
Byggingaframkvæmdir ganga vel. Síðasta svefnhýsið í Lomé er langt komið og á að verða tilbúið í lok mars. Þar með er öllum byggingaframkvæmdum lokið í Lomé, og þá er aðeins eftir að ganga frá útivistarsvæðinu, lóðinni og þar með að steypa brautir milli húsanna og þekja hluta svæðisins grasi. Þá verður þorpið í Lomé fullbúið á þessu ári. Í Kpalimé er fyrsta svefnhýsið orðið fokhelt og annað hús fyrir eldhús og matsali (veður í fyrstu einnig notað fyrir starfsfólk) nokkuð á veg komið, sbr. meðfylgjandi myndir. Fljótlega verður svo byrjað á öðru svefnhýsi og tómstundahúsi. Allt er þetta gerlegt vegna styrkja frá Glitni og Kaupþingi og frá hjónum, sen ekki vilja láta sín getið. Ef allt fer sem horfir er hugsanlegt að hefja starfsemi með börn í Kpalimé í árslok eða snemma á næsta ári. Fljótlega verður farið að svipast um eftir starsfólki. Eins og þið munið ætlum við að reisa leikskóla í Kpalimé, og verið er að bjóða verkið út.

Barnaskólinn
Barnaskólinn í Kélégougan er talsvert vandamál, því að hann er alls ekki nógu góður. Húsið sem við reistum hefur verið tekið í notkun og þar með hefur kennurum fjölgað um þrjá – og greiðir foreldrafélag skólans laun þeirra. Enn er alltof fjölmennt í bekkjum, 83 í fyrsta bekk með einum kennara, og sífelldur skortur er á kennslugögnum. Okkur þykir sem börnin okkar standi sig ekki nógu vel, þrátt fyrir aðstoð við heimanám. Eftir brottför okkar ætluðu Claude og Michelle Voileau að eiga fund með skólastjóranum og formanni foreldrafélagsins til að kanna hvernig SPES getur komið til hjálpar. Ég bíð eftir að heyra af þeim fundi.

Bestu kveðju og þakklæti fyrir stuðning, Njörður