UM SPES

Handþvottur

Handþvottur

Hugsjón SPES felst í kjörorði samtakanna: Sá sem bjargar einu barni, bjargar mannkyninu.

Allt stjórnarstarf í SPES er unnið í sjálfboðavinnu og því er enginn kostnaður dreginn af því fé sem safnast til rekstursins. Allt rennur beint til barnanna og til bygginga og reksturs barnaþorpanna í Afríkuríkinu Tógó.
Hægt er að styrkja SPES með framlögum eða með því að gerast styrktarforeldri. Sjá nánar á forsíðu „Hvernig get ég hjálpað?„.

SPES veitir foreldra- og vegalausum börnum heimili á tveimur stöðum. Annað heimilið er í höfuðborginni Lóme, en hitt í bænum Kpalimé. Flest börnin koma í þorpin á aldrinum 2-4 ára og eru undir forsjá SPES að minnsta kosti til 18 ára aldurs. Fé frá styrktarforeldrum og styrktaraðilum rennur til barnanna og lagt er fyrir í menntunarsjóð til framtíðar.

Heimamenn í Tógó taka virkan þátt í stjórn SPES og halda utan um reksturinn í sjálfboðavinnu. Einungis starfsfólk á heimilunum fær greidd laun. Lögð er áhersla á að líf barnanna sé eins eðlilegt og kostur er og því er greitt fyrir leikskólapláss fyrir yngstu börnin og hin eldri ganga í almenna skóla í hverfinu. Þannig tengjast börnin betur umhverfi sínu og menningu og með styrkjum til skólanna njóta fleiri börn ávinnings af söfnunarstarfi SPES.

Frumkvæðið að stofnun samtakanna er íslenskt. Njörður P. Njarðvík, prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, var ásamt vinum sínum Tógóanum Victor de Medeiros og Frakkanum Claude Voileau frumkvöðull að stofnun samtakanna. Vinir þeirra í Tógó vöktu máls á því hversu ótrúlega mörg börn í þróunarlöndunum byggju við hörmulegar aðstæður. Stríð, náttúruhamfarir, mikil fátækt, malaría og aðrir sjúkdómar hafa leitt til þess að fjölmörg börn verða foreldralaus og lenda á vergangi. Þessi vinahópur, sem teygði sig um mörg lönd, varð sammála um að láta ekki sitja við orðin tóm. Hann afréð að stofna samtök sem hefðu að markmiði að hjálpa vegalausum börnum.

Slakað á í hitanum

Samtökin SPES International voru stofnuð í kjölfarið í febrúar 2000 og skráð samkvæmt frönskum lögum sem góðgerðasamtök með aðsetur í rue Jules Breton 5, hjá félagsskap sem leyfir samtökunum að halda fundi þar endurgjaldslaust. SPES er í raun skammstöfun fyrir franska heitið Soutien Pour l‘Enfance en Souffrance en jafnframt merkir orðið SPES Von á latínu. Aðalfundir eru haldnir í maí ár hvert. Kosið er 19 manna fulltrúaráð til þriggja ára, sem aftur kýs sér fimm manna stjórn.

Tógódeild SPES (sem telur um 80 manns) sér um daglegan rekstur heimilanna, allt í sjálfboðastarfi.

Hver sem er getur orðið styrktaraðili SPES og hver sem er getur tekið að sér að styrkja barn/börn. Sjá meira um hlutverk foreldranna á forsíðunni undir „Styrktarforeldrar„.

Allir geta lagt sitt af mörkum og hver einasta króna er vel þegin. Ef þú vilt hjálpa okkur að hjálpa barni, sendu okkur línu á spes@spes.is og fylgstu með okkur á Facebook: Spes barnaþorp Ísland.

STJÓRN SPES

Örn Sævar Ingibergsson, formaður
orning47@simnet.is

Bera Þórisdóttir
bera@vortex.is

Elísabet Sigurðardóttir, gjaldkeri
betasig@simnet.is

Hrefna Hallgrímsdóttir, ritari
hrefnahallgrims@hotmail.com

Dominique Plédel Jónsson
dominique@simnet.is

Varamenn:
Guðrún C. Emilsdóttir
garunc@mi.is

Guðrún Jóna Sæmundsdóttir
gudrun@laser.is