Við hjónin, Bera og Njörður, dvöldum í Togo rúman hálfan mánuð nú í janúar. Hluta tímans voru þau með okkur Hildur Njarðvík, dóttir okkar og maður hennar, Sigurður Kiernan. Dvölin var afar ánægjuleg að vanda og börnin heilbrigð og glöð.

Miklar breytingar hafa orðið á heimilunum á síðustu mánuðum. Verið er að ráða lækni til að koma í stað Dr Assimadi sem lést síðastliðið haust, einnig verður ráðinn nýr sálfræðingur. Þá hafa orðið nokkrar breytingar á öðru starfsfólki enda er SPES Togo smám saman að reyna að fá betur menntaðar fóstrur til starfa.

Eins og áður hefur verið sagt frá, fluttu 15 unglingar til Kpalimé í lok september. Það voru 7 miðskólanemendur og 8 af elstu grunnskólanemendunum, sem höfðu dregist aftur úr í námi. Strákarnir (8) búa húsi sem SPES hefur tekið á leigu aðeins spölkorn frá aðalheimilinu og skammt frá skóla þeirra. Umsjónarmaður þeirra var ráðinn Kokou Otuyi, sem er félagsfræðingur að mennt kominn á eftirlaun. Hann hefur reynst afar vel og virðist í senn strangur og góður vinur þeirra, fullur skilnings. Strákarnir eru 2 og 2 saman í herbergi en húsið gæti rúmað fleiri. Þar er einnig sameiginleg vinnustofa og lítið eldhús.

Stelpurnar (7) búa á efri hæð eins svefnhýsanna á heimili SPES í Kpalimé, 3 og 4 í herbergi þær eru aðallega í umsjá Berthe, forstöðukonu heimilisins en hún og Otuyi vinna saman.

Unglingarnir borða aðalmáltíðir saman á aðalheimilinu og báðir hópar hafa skyldum að gegna við matseld og uppþvott. Strákarnir sögðust vera ánægðir með flutninginn, bæði væri loftslagið betra, skólinn betri og þeir væru frjálsari. Stelpurnar vildu ekki tjá sig mikið, en þær eru augljóslega ekki eins frjálsar. Þó er reynt eftir bestu getu að gera báðum hópum jafnt undir höfði.

Stefnt er að því að byggja einföld hús, 2 svefnhýsi (fyrir stúlkur og annað fyrir stráka), og sameiginlegan matsal og vinnu- og frístundaaðstöðu á lóð sem SPES hefur fengið til afnota við hliðina á núverandi heimili SPES. Á því heimili eru annars 37 börn. 6 þeirra eru ekki komin á leikskólaaldur, hin eru í leikskólanum sem byggður var fyrir tilstilli íslenskra vina SPES og svo eru börn í grunnskólanum sem leikskólinn reyndar tengist. Í Lomé eru nú 86 börn eftir að unglingarnir fóru. Þau eru öll í grunnskóla eða leikskóla.

Það er ljóst að á báðum heimilum SPES er rúm fyrir fleiri börn en við getum ekki bætt við börnum fyrr en við höfum styrktarforeldra. Það er nú ákaflega brýnt að finna nýja styrktarforeldra.

Í þessari ferð okkar fluttum við með okkur 2 rafmagnssaumavélar sem Pfaff hafði gefið SPES. Þær voru gefnar hvor á sitt heimilið og var tekið með fögnuði. Báðar forstöðukonurnar voru búnar að prófa vélarnar ásamt mömmum og elstu stelpunum og hafa fundið konur til að aðstoða við að kenna þeim. Í Kpalimé er þó sá vandi að rafmagn getur verið stopult.

Í þessari ferð fórum við einnig með gjöf frá unglingadeild Álftamýraskóla til miðskólans í Kpalimé. Þetta voru rúmlega 1500 EUR sem þau höfðu safnað. Keyptar voru bækur og kort í París en afgangurinn verður síðan notaður fyrir frekari námsgagnakaupum að ósk skólans en undir umsjá fjármálastjóra SPES í Togo, Claude Gbedey. Þá fékk leikskólinn einnig gjöf til bóka og efniskaupa frá þátttakendum í Reykjavíkurmaraþoni, um 700 EUR.

Í janúar hafa tvær ungar stúlkur þær Pálína Axelsdóttir Njarðvík og Agla Egilsdóttir dvalið á heimilum SPES sem sjálfboðaliðar. Þeirra hlutverk hefur einkum verið að aðstoða börnin, leika við þau og veita þeim vináttu og hlýju, auk þess sem þær hafa gengið í ýmis önnur störf á heimilinu. Þær hafa sagt frá dvöl sinni í bloggi til vina sinna og ættingja en eru nú á förum aftur frá Togo.