SPES International hefur styrktaraðila í fleiri löndum en á Íslandi, til dæmis í Frakklandi, Belgíu og Austurríki. Þökk sé SPES Austurríki sem sótti um og hlaut styrk hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg, var hægt að byrja á aðkallandi og gefandi verkefni í Kpalimé: matjurtagarði fyrir barnaþorpið.
Verkefnið fór í gang í maí 2022 þegar rudd var landspilda og landið undirbúið fyrir sáningu matjurta. Garðyrkjubóndi var fenginn til að aðstoða í tvo mánuði og kenna unglingunum og starfsmönnum að hlúa að ræktuninni. Mikið var gert til að tryggja vatnsveitu til að vökva matjurtirnar með uppsöfnuðu vatni, sem er of oft af skornum skammti – eða of mikið á rigningartímabili. Sáð var í september og strax í nóvember var uppskera í garðinum, allt var ræktað lífrænt og tegundirnar þær algengustu í fæði heimamanna: gombo, adémé, kál, baunir, salöt, chilipipar, spínat og tómatar.
Nú í janúar 2023, er stutt í næstu uppskeru og áhersla er lögð á þær tegundir sem hafa gefið best. Áhugi hjá unglingunum og starfsmönnum er mikill, „ég vil verða garðyrkjubóndi, okkar grænmeti er svo ferskt og mun betra en það sem fæst á markaðnum“ segir einn.
Myndirnar tala svo sínu máli.