Aðalfundur Íslandsdeildar SPES 2010 verður haldinn laugardaginn 27. febrúar kl. 10:30 í safnaðarheimili Neskirkju.

 

Dagskrá:

1. Skýrsla formanns

2. Skýrsla gjaldkera

3. Reikningar ársins 2009 bornir fram til samþykktar

4. Málefni styrktarforeldra

5. Bera og Njörður segja frá ferð til Tógó

6. Önnur mál

 

Stjórnin vonast til að sjá sem flesta, einkum styrktarforeldra.

SPES-fréttir febrúar 2010

 

Skeljungur styrkir SPES
Skeljungur styrkir SPES á þessu ári og nemur styrkurinn 1,5 milljón.
Honum verður varið til að greiða heilbrigðisþjónustu SPES í Tógó.
Á síðasta ári nam sá kostnaður 8.789 evrum, og er sú fjárhæð svipuð og styrkurinn í ár. SPES kann Skeljungi miklar þakkir.  

Bera og Njörður voru í Tógó í tæpar þrjár vikur í janúar og segja stuttlega frá dvöl sinni (þau komu heim þreytt og hálflasin af aukaverkunum malaríulyfja):

20 börn í Kpalimé

14. febrúar er liðið ár frá því að heimilið í Kpalimé var vígt. Nú eru þar 20 börn, öll við góða heilsu, þótt malaría hafi gert vart við sig og borið hafi á lús (en við henni var brugðist skjótt). Reist hafa verið tvö svefnhýsi, eldhús og matsalir og skrifstofuhús starfsfólksins er vel á veg komið. Þá er eftir að reisa önnur tvö svefnhýsi og tómstundahús. Lóð SPES í Kpalimé er svo stór (heill hektari) að um helmingur hennar er nú nýttur til ræktunar maís og ávaxta (ananas, mangó, bananar, papaya, enjam). Maísuppskera hefur verið svo mikil að hefur meira en dugað fyrir heimilið og töluvert flutt til Lomé. Pascal Chini, umsjónarmaður með starfinu í Kpalimé hefur unnið ákaflega gott starf og forstöðukonan Berthe hefur reynst vel. Einnig er ágætt samstarf við bæjarstjórann Victor Samtou og bæjarstjórnina. 

Hjá þeim ríkir mikil ánægja með skólann sem SPES er að byggja og tekinn verður í notkun í byrjun næsta skólaárs, þetta er blanda af leikskóla og forskóla, á frönsku nefnist hann ecole maternelle. Þetta verður fyrsti skóli sinnar tegundar í bænum.Við viljum að börnin okkar eigi kost á slíkri skólavist ásamt öðrum börnum í bænum, sem munu njóta góðs af hinum nýja skóla. Þess skal getið að íslensk hjón standa að öllu leyti að kostnaði við byggingu skólans, sem nemur um 40.000 evrum. Þau vilja ekki láta nafns síns getið að svo stöddu. Þetta er óvenjulega rausnarlegur styrkur, og verður seint fullþakkaður.

Áætlað er að börnunum okkur í Kpalimé fjölgi í 30 á árinu, ef tekst að finna nægilega marga styrktarforeldra. 

Eins og áður hefur komið fram eru allir innanstokksmunir (rúm, borð, stólar, skápar) smíðaðir á staðnum hjá handverksmönnum í Kpalimé, og gaman er að geta þess, að samið hefur verið við skósmið um að handsmíða alla skó fyrir börnin.

 

94 börn í Lomé Á heimilinu í Kélégougan í Lomé eru 94 börn og stendur til að bæta fjórum við á næstunni. Eru þau nú þegar í hefðbundinni könnun hjá félagsmálayfirvöldum og læknisrannsókn. Hámarksfjöldi barna í Lomé er 108, en við höfum farið okkur hægt að undanförnu til að starfsfólki gæfist tími til að ná tökum á dálitlum hegðunarvandamálum sem örlaði á. Það hefur nú tekist allvel, og því talið óhætt að fjölga börnum. Öll eru börnin við góða heilsu, kát og glöð.

Lögð hefur verið áhersla á að auka ábyrgðarkennd barnanna, og í því skyni hafa þau kosið sér leiðtoga, Komlavi fyrir drengi og Lucie fyrir telpurnar. Að auki voru kosnir umsjónarmenn svefnhýsanna fjögurra. Hefur þessi ráðstöfun tekist vel. Hinn nýi aðstoðarforstöðumaður Cyriaque hefur einnig reynst með ágætum.

Skólaganga

Börnunum gengur misjafnlega vel í skóla, eins og við er að búast hjá svo stórum hóp. Þau eru þó yfirleitt meðal þeirra betri í bekkjum sínum, enda fá þau sérstaka (og sérgreidda) hjálp við heimavinnu. Tveir drengir skera sig úr í námsárangri, þeir Komlavi og Elysée, sem hljóta einróma lof og hafa augsýnilega mikla ánægju af vinnu sinni og eru síspyrjandi af óþrjótandi fróðleiksfýsn.

Tvö börn hófu nám í miðskóla (collège) síðastliðið haust, Richard og Lucie, og við búumst við að sex til viðbótar setjist í þann skóla að hausti, ef þeim gengur vel í vorprófum (í Tógó endurtaka nemendur sama bekk í barnaskóla ef þeir falla).

Deildarstjórar og kennarar vildu hitta Beru og Njörð. Annars vegar vildu þeir þakka SPES fyrir þær 9 nýju skólastofur sem SPES hefur byggt fyrir barnaskólann og leitt til þess að nú eru helmingi færri í hverjum bekk ("aðeins" um 70). Sögðu þeir að þar með teldist skólinn með best búnum skólum í Lomé. SPES hefur að auki lagt rafmagn í skólann, búið hann húsgögnum og lagt til skriffæri og stílabækur. Hins vegar sögðu kennararnir svo frá einstökum nemendum, eins og hér er gert á foreldrafundum.

Enn er mikill skortur á kennslugögnum, og voru kennararnir beðnir um lista

fyrir brýnustu þarfir. Sá listi var lagður fyrir fulltrúaráðsfund SPES í París 24. janúar og samþykkt að veita 1.500 evrur til kaupa á umbeðnum hlutum. Til viðbótar vantar fjölmörg kennslugögn og verður reynt að leysa úr þeim vanda eftir atvikum.

SPES TÓGÓ

Tógódeild SPES hefur verið endurskipulögð og telur nú liðlega 80 meðlimi. Nýr formaður er dr. Ashira Assih kernnari í mannfræði við háskólann í Lomé. Fjármálastjóri er sem áður Claude Gbedey, einnig varaformaður SPES International, og mikill hluti starfsins mæðir á honum. Það er gaman að segja frá því, að margir félagsmenn koma reglulega á heimilið og oft færandi hendi með hrísgrjón og önnur matvæli, hreinlætisvörur og fleira nýtilegt. Það er okkur mikils virði að heimafólk taki þannig virkan þátt í starfinu af áhuga. Áætlað er að þeta fólk geti myndað eins konar vinafjölskyldur fyrir börnin að heimsækja og venjast þannig venjubundnara fjölskyldulífi.

Á almennum frídegi í janúar stóð SPES Tógó fyrir brúðleikhússýningu fyrir börnin og voru margir félagsmenn viðstaddir. Þetta vakti mikinn fögnuð, enda fengu börnin að prófa brúðurnar að sýningu lokinni.

Skólar í norður Tógó

Að beiðni Njarðar,sem er ræðismaður Tógó, ákvað utanríkisráðuneyti Íslands að styrkja endurbyggingu skóla nyrst í Tógó sem eyðilögðust í miklum flóðum 2007 og 2009. Eyðilögðust þar hvorki meira né minna en 900 skólastofur. Styrkurinn nemur 80.000 evrum og dugir til að reisa tvo miðskóla. Var skólamálaráðherra falið að velja staði þar sem þörf væri brýn og SPES falin framkvæmd. Bera og Njörður fóru ásamt Claude Gbedey (sem er ræðismaður Íslands) til bæjarins Kri Kri í Tchamba-héraði og lögðu hornstein að nýjum skóla með sýslumanni og þingkonu. Voru þar mikil hátíðahöld með söng, dansi og ræðuhöldum, enda var svo komið að börnin áttu engan kost á námi eftir grunnskóla.

Hinn skólinn verður svo byggður enn norðar í bænum Bagré í Kpendjal-héraði. 

Báðir skólarnir eiga að vera fullbyggðir í upphafi nýs skólaárs að hausti.

Aðalfundur SPES International var haldinn í París 24. maí 2009. 

Kjörið var nýtt 15 manna fulltrúaráð til þriggja ára og skipti með sér verkum sem hér segir: 

Bera Þórisdóttir (Ísland) ritari 
Brian Roberts (Bretland) 
Claude Gbedey (Tógó) varaformaður 
Claude Voileau (Frakkland) formaður 
Eva María Gunnarsdóttir (Ísland) 
Eyjólfur Guðmundsson (Ísland) 
Gabriele Pfleger (Austurríki) 
Lena Magnúsdóttir (Ísland) 
Martine de Haan (Belgía) 
Michelle Voileau (Frakkalnd) annast samskipti við styrktarforeldra 
Philippe Etienne (Frakkland) aðstoðargjaldkeri 
Philippe Platel (Frakkland) aðstoðarritari og annast heimasíðu 
Pierette Grisard (Frakkland) gjaldkeri 
Randall Czerenda (Bandaríkin) 
Robert Knudsen (Belgía) 

Njörður P. Njarðvík gaf ekki kost á sér til endurkjörs. 
Hann var kosinn heiðursformaður. 
105 börn á tveimur heimilum 
Nýtt SPES-heimili var vígt 14. febrúar í Kpalimé, 60.000 manna bæ 120 km. Norðvestur af Lomé 
Þar eru nú 11 börn, og 6 til viðbótar koma fljótlega. 
Forstöðukonan þar heitir Berthe Amedzro og heimilisfang 260 BP 459 Kpalimé, Togo. 
94 börn eru á SPES-heimilinu í Lomé. 

SPES styrkir barnaskólann í Kélégougan 
SPES hefur styrkt almenna barnaskólann í Kélégougan þar sem börnin okkar læra. 
Nú síðast hefur SPES byggt tvö hús með 9 nýjum kennslustofum. 
Fyrir bragðið hefur skólinn fengið fjóra nýja kennara og þar með hefur fækkað umtalsvert í yngstu bekkjunum. 

Alþjóða heimasíðan uppfærð. 
Alþjóðleg heimasíða SPES hefur verið uppfærð og henni breytt um leið. 
Þar er margvíslegt myndaefni, m.a. annars af nýju fulltrúaráði, heimilunum í Lomé og Kpalimé og öllum börnunum. 
Slóðin er http://spesworld.free.fr 

Stjórn Íslandsdeildar SPES boðar til aðalfundar kl. 17:30 mánudaginn 8. júní í safnaðarheimili Neskirkju í Reykjavík. 

 Dagskrá fundarins er sem hér segir: 

 1. Starfsemi Íslandsdeildar SPES - skýrsla stjórnar:  Ólöf Nordal, formaður. 

2. Reikningar félagsins kynntir og bornir upp til samþykktar:  Bera Þórisdóttir gjaldkeri. 

3. Lagabreytingar 

Lagt er til að sú breyting verði gerð á 4. grein laganna að aðalfund félagsins skuli halda fyrir 1. apríl ár hvert. 

4. Önnur mál. 

 Í lok fundarins verða sýnd brot úr fréttum sjónvarps í Tógó frá afhendingu nýrra skólahúsa í Kélégougan og frá vígslu nýja  heimilisins í Kpalimé. 

 Okkur þætti vænt um að sjá ykkur sem flest. 

 Stjórnin. 

Formaðurinn Eva María Gunnarsdóttir setti fundinn kl.10:15 og bauð fundarmenn velkomna. Mættir voru um 40 manns
Fundarstjóri var kosinn Njörður P. Njarðvík og ritari fundar Lena Magnúsdóttir
Njörður kynnti dagskrá fundarins: 

  1. Starfsemi Íslandsdeildar SPES - skýrsla stjórnar: Eva María Gunnarsdótttir, formaður.
  2. Umræður um skýrslu stjórnar
  3. Reikningar félagsins kynntir og bornir upp til samþykktar: Bera Þórisdóttir , gjaldkeri.
  4. Tillaga um hækkun árgjalds.
  5. Kosning stjórnar til þriggja ára: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, meðstjórnandi
  6. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til þriggja ára.
  7. Olga Sif Guðmundsdóttir sýnir myndir og segir frá upplifun sinni á heimili SPES.
  8. Önnur mál.
  9. Fundarslit.

1. Skýrsla stjórnar.  
Formaður gerði grein fyrir starfsemi félagsins. Árið 2007 var mjög gott og stórir styrktaraðilar stóðu við stóru orðin.  Bæklingur var búinn til og dreift í hús.
Sagði frá ferð Skoppu og Skrítlu til Lomé og að hún hafi verið ómetanlegt fyrir börnin þar og hérlendis. Börnin eru 87 og 37 þeirra hafa íslenska styrktarforeldra.  Hægt er að skoða ræðu formanns í heild sinni á vefnum undir greinar.
2. Reikningar 
Reikningar voru skýrðir út af Beru Þórisdóttur. Engin útgjöld og engar eignir.  Fjármagn fer bara inn og út af reikningnum og eru sendir til Frakklands.  
325.000 EUR voru sendar frá Íslandi til SPES í Frakklandi.  70% af heildartekjum koma frá Íslandi.  Reikningar eru samþykktir einróma.
3. Hækkun árgjalds.  
Styrktarforeldrar greiða ekki árgjald en aðrir félagsmenn greiða í dag 3.000.  Tillaga kom fram um að hækka gjaldið í 5.000.- Samþykkt einróma.
4. Kosning stjórnar 
Njörður þakkaði  Össuri Skarphéðinssyni fyrrverandi formanni SPES fyrir störf hans þann tíma sem hann veitti samtökunum forystu. Fram kom að það er að miklu leyti honum að þakka að SPES stendur svona vel.  Hann hefur nú dregið sig í hlé og var kjörinn heiðursfélagi í september 2007.  Tillaga kom frá stjórninni um að Ólöf Nordal taki við formennsku  og var það samþykkt einróma.  Njörður færði henni grímu frá Togó.  
Ólöf þakkaði traustið og gat þess að hún hafi lengi haft áhuga á þessu starfi.  Þegar Njörður hafði samband við hana  fannst henni þetta spennandi og var ákveðin að taka þetta að sér þó að hún léti ganga nokkuð á eftir sér.  
Tillaga var um að varaformaður yrði áfram Eva María Gunnarsdóttir, gjaldkeri Bera Þórisdóttir, ritari Lena Magnúsdóttir og meðstjórnandi Jón Sigurðsson.  Það var samþykkt einróma af fundarmönnum.
Gísli Benediktsson og Þórdís Linda Guðjónsdóttir voru kosnir skoðunarmenn reikninga.  
5. Ferð til Lóme 
Olga Sif Guðmundsdóttir sagði frá ferð sinni til Lóme. 
Hún fór ítarlega í gegnum daginn með börnunum og lýsir heimilinu sem henni þykir mjög gott. Hægt verður að skoða ferðasöguna undir greinar.
Í framhaldi af hennar frábæra fyrirlestri þakkar Njörður henni fyrir og segir frá því að  Elísa Snæbjörnsdóttir og Björn Thor Jóhannsson hafa mikinn áhuga á því að fara út.  Þau stóðu upp og kynna sig.  
6. Frásögn Njarðar  af stöðunni í Togo og aðalfundi SPES í París
Njörður sagði frá lífinu í Togo og frá fundinum í París. Hægt að sjá fundargerð aðalfundar á vefnum  á ensku undir greinar.
Heildartekjur samtakanna 2007 voru EUR 451.400.  Varasjóður er til í Frakklandi fyrir því að reka heimilið í 2 ár.  Frá því að starfið byrjaði hafa verið sendar um EUR 1.100.000.  Öllum byggingarframkvæmdum í Lóme er lokið en það á ennþá eftir að ganga frá svæðinu í kring.  Í byrjun febrúar verður allt klárt og þá á að halda veislu.
Fyrsta svefnhýsi er tilbúið í Kpalime og tvö næstu eru að klárast.  Það verður notað til að byrja með og það er verið að reyna að finna starfsfólk. Stefnt er að því að halda vígsluhátíð þar á sama tíma.  EUR 20.000 verða lagðar í að byggja leikskóla í Kpalime.  
Ákveðið var á fundinum í París að leggja fram EUR 60.000 til að byggja 6 nýjar skólastofur í Lóme.  Einnig verður lagt fram fjármagn í húsgögn.
Nú er lagt til hliðar EUR 10 á hverjum mánuði á hvert barn í menntunarsjóð þannig að þegar þau eru 18 ára þá geti þau farið í áframhaldandi nám.  
7. Ýmis mál
Spurning kemur úr sal:  Hvernig eru tengsl við samfélagið og hvernig mun þetta hafa áhrif á umhverfið þar sem aðbúnaður barnanna okkar er á margan hátt betra en annarra í kring?  Njörður: Það er rétt að þau hafa rennandi vatn, 3 máltíðir á dag,lyf og fleira.  En þau fóru ekki í einkaskóla heldur almennan skóla.  SPES- krakkar fara ekki nægilega vel með hlutina sína þar sem þau vita að þau fá nýja sem er afleitt.  Nú fara börnin að verða kynþroska og þá koma ný og önnur vandamál.  Bera sagði mikinn velvilja í hverfinu og allir væru mjög jákvæðir.  Foreldrafélagið í skólanum er hliðholt SPES og er þakklátt.  Verkamenn fá vinnu og starfsfólkið á heimilinu.  Börnin eiga vini í skólanum en leitað er eftir því  að fá fjölskyldur til að taka börnin heim til sín.  
8. Önnur mál 
Engin önnur mál á dagskrá.
9. Nýkjörinn formaður, Ólöf Norðdal sleit fundi klukkan 11:30 og þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund.