Í skýrslu sinni sagði formaðurinn, Gísli Benediktsson, m.a :
Rekstur heimilinna gengur vel. Í því sambandi ber fyrst og fremst að þakka tveimur aðilum. Annars vegar Philippe Platel, formanni SPES International sem leiðir starfið og tók við af Claude Voileau fyrir tveimur árum. Hins vegar Claude Gbedey, en undir hans forystu annast SPES Togo allan daglegan rekstur heimilinna.

Heildarfjöldi barna á heimilunum er nú 174. Eftir því sem tíminn líður breytist aldursskipting barnanna, þau eru að verða eldri og mörg nálgast þann aldur að þau yfirgefi heimilin. Þegar það gerist hætta styrktarforeldrar að styrkja börnin sem margir hafa styrkt barn í 16 – 18 ár. Þetta eitt sér kallar á enn meiri þörf á nýjum styrktarforeldrum.

Í mánaðarlegum skýrslum frá heimilunum höfum við sem styrkt-arforeldrar getað fylgst með börnunum, heilsufari þeirra, árangri í skólunum og heimsóknum til þeirra og gjöfum í því sambandi.
Það er gaman að geta þess að eftir uppástungu frá Íslandssambandinu voru keypt 20 skáksett og fenginn aðili til að veita börnunum faglega kennslu. Þetta tókst mjög vel og hefur verið ákveðið að setja það á fjárhagsáætlun til framtíðar.

Í lok máls síns sagði Gísli: Nú er að hefjast síðasta árið af þriggja ára stjórnartíð þessarar stjórnar. Það er hins vegar ljóst að breytingar verða við stjórnarkjör á næsta aðalfundi. Ég vil því hvetja þá sem hafa áhuga að láta vita og eins að benda á aðila sem eru reiðubúnir að leggja þessu góða máli lið.
Það er, mér liggur við að segja ævintýri, að taka þátt í hjálparstarfi eins og SPES vinnur í Togo. Að taka í hönd framandi barns, sem jafnvel er munaðarlaust eða a.m.k. á óljósa framtíð ef nokkra og leiða það fyrstu skrefin hlýtur að flokkast undir ævintýri. Við megum aldrei gleyma einkunnarorðum SPES „Sá sem tekur þátt í að bjarga einu barni, bjargar mannkyninu“.

Ársreikningar voru kynntir og samþykktir samhljóða. Í framhaldi var bent á að framfærsla hvers barns 77€ hefði nú lækkað í íslenskum krónum talið vegna hækkandi gengis krónunnar.
Þá var samþykkt að börnum sem fá styrk úr Minningarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur væri fjölgað úr 8 í 10.

 

Pin It