Fundargerð
Aðalfundar Íslandsdeildar SPES 27. 2. 2010
 
Fundarstjóri var Jón Sigurðsson, stjórnarmaður og Eva María Gunnarsdóttir, vara-formaður fundarritari. 
Mættir voru 25 félagsmenn.
 
Fundarstjóri bauð fundarmenn velkomna og gaf Ólöfu Nordal, formanni Íslandsdeildar SPES orðið.
 
1.Skýrsla stjórnar:
Í máli formanns kom fram að starfið gekk vel á liðnu ári og það tókst að halda sjó þrátt fyrir óstöðugleika í þjóðfélaginu. Hins vegar hefur stjórnin áhyggjur af gengi evrunnar og áhrif þess á aukinn kostnað styrktarforeldra. Ákveðið var á síðasta stjórnarfundi að fastsetja í hálft ár þá fjárhæð sem styrktarforeldrar greiða eða kr. 12.500 á mánuði með einu barni. Sú fjárhæð verður endurskoðuð eftir sex mánuði. Styrktarforeldrar fá sent uppgjör. 
Ákveðið var fresta sérstöku kynningarátaki um óákveðinn tíma vegna efnahagsvandans. Nauðsynlegt er hins vegar að finna fleiri styrktarforeldra og benda á að fleiri en einn geta verið saman um barn.
 
2. Skýrsla gjaldkera.
Bera Þórisdóttir, gjaldkeri, fór yfir og skýrði ársreikning Íslandsdeidar SPES fyrir árið 2009, en þar kom fram að fjárhagur deildarinnar er góður. Öryggistilfinningin gagnvart innlendum bönkum er lítil og því hefur innistæðum verið dreift á alla bankana. Stærsta innistæðan er í MP banka, þar sem  hæstu vextirnir fást.  Nær einungis eru sendir út þeir peningar sem styrktarforeldrar greiða þar sem vextir eru hærri hér á bankareikningum en í París, í þeirri von að gengið lagist. Það hefur verið stefna frá upphafi að eiga varasjóð, ef eitthvað fer úrskeiðis og því þykir skynsamlegt að geyma hluta hans hér um sinn.
Á liðnu ári voru 45.000 evrur sendar héðan.
Við erum  með 47 börn og flestir foreldrar greiða til Íslandsdeildarinnar. Styrktarforeldrar 5 barna senda greiðslur beint til Frakklands.
Minna er um stóra styrki, yfir kr. 200.000, en undanfarin ár. Áfram fékkst þó styrkur af fjárlögum (ein og hálf milljón að þessu sinni) og Skeljungur styrkir SPES um kr. 1.500.000 eða kr. 500.000 2009 og eina milljón á þessu ári. Í samráði við styrkveitanda er þessum peningum ráðstafað til heilbrigðisþjónustu fyrir börnin  og verður Eyjólfur Guðmundsson læknir frá fulltrúaráði SPES í forsvari fyrir heilbrigðissjóð SPES.
 
3. Reikningar.
Ársreikningur Íslandsdeildar SPES, endurskoðaðir án athugasemda, af Gísla Bene-diktssyni og Þórdísi Lindu Guðjónsdóttur voru bornir upp til samþykktar.
Voru þeir samþykktir samhljóða og eru tíundaðir hér að neðan.
 

Ársreikningur Íslandsdeildar SPES  2009
Bankainnstæða 1. janúar 2009
14.585.731
Tekjur:
Félagsgjöld / Frjáls framlög 2.653.609
Stærri styrktaraðilar 3.260.000
Styrktarforeldrar 5.553.325
          Alls 11.466.934
Gjöld:
Greitt til SPES -8.006.558     3.460.376
Fjármagnsliðir:
Innvextir 1.848.863
Bankakostn / Fjármagnsskattur                    -218.666 1.630.197
Bankainnstæða 31. desember 2009
19.676.304

 
4. Málefni styrktarforeldra.
Bera nefndi nokkur atriði sem snúa að styrktarforeldrum. Í upphafi bað hún um það að fólk láti vita með fyrirvara ef vandræði eru í uppsiglingu með greiðslur  svo unnt verði að taka á því strax.
Ráðlegt er að senda börnunum póstkort og myndir af styrktarforeldrum og þeim sjálfum því börnin hafa mjög gaman að fá myndir af sér, þar sem þau eiga engar slíkar myndir. Bækur eru einnig vel þegnar og þá sérstaklega á frönsku. Reyndar hefur Kokou, sem sér um tómstundamál barnanna, beðið um orðabók svo hann geti þýtt íslenskar bækur og lært íslensku. Kokou endursegir einnig sögur út frá myndum og tekst það vel. 
Margir vilja styrkja samfélagið í Tógó og er í því tilfelli gott að senda forstöðukonum peninga til kaupa á nauðsynjum fyrir börnin og heimilið frekar en að senda eitthvert dót. Skósmiður í Palimé smíðaði sandala á alla krakkana þar og þannig hjálpum við þeim að hjálpa sér sjálf. Ákveðið var á aðalfundi  SPES í París að verja ákveðinni fjárhæð til kaupa á leikföngum fyrir börnin  og til frágangs á lóð í Lomé.
 
5. Bera og Njörður segja frá ferð til Tógó.
Bera og Njörður sögðu frá ferð sinni til Togo í janúar s.l. bæði í máli og myndum. Margt kom þar fram.
Hafin er bygging forskóla á vegum SPES í Kpalimé. Skólinn verður ekki eingöngu fyrir börnin hjá SPES heldur einnig fyrir önnur börn. Íslensk hjón gáfu 40.000 evrur til byggingar skóla og leikskóla í Kpalimé og gengur verkefnið vel. 
Njörður og Bera fóru einnig norðar til Tchamba þar sem SPES hefur yfirumsjón fyrir Íslands hönd með endurbyggingu skóla sem eyðilagðust í flóðum. Utanríkisráðuneytis Íslands til verkefnisins, 80.000 evrur, nægir til að byggja tvo skóla. 
Að tilstuðlan og með fjárhagslegri hjálp SPES hefur kennslustofum í barnaskólanum í Kélégougan í Lomé verið fjölgað um 9. Í kjölfarið fækkaði fjölda nemenda í bekkjum úr 140 í 70, jafnframt var kennurum fjölgað. Bera og Njörður áttu þess kost að sitja  kennslustund í frönsku í fyrsta bekk  og vakti það ádáun þeirra hvað kennarinn hafði gott vald á börnunum. Hins vegar er ljóst að mikill skortur er á kennslugögnum í skólanum. Kennararnir gerðu lista yfir þá hluti sem þau telja að helst vanti s.s. hnattlíkan, kort af Afríku, vikt, áttavita og líkan af mannslíkamanum. Er nú unnið að því að útvega þessa hluti.
 
6. Önnur mál.
Í lok fundarins voru almennar umræður og fyrirspurnir. Þar var m.a. rætt um einelti, kynþroska, umgengni barnanna utan heimilisins, tilfinningalíf barnanna, uppruna barnanna, trúarbrögð í Togo og fyrirhugaða byggingu á sér húsi fyrir elstu börnin, 15 – 16 ára og eldri. Einnig var upplýst um stöðuna innan Alþjóðadeildar SPES.
 
Fleira gerðist ekki og sleit fundarstjóri fundi kl. 12:15 og þakkaði mönnum fundarsetuna.

Pin It