Formaðurinn Eva María Gunnarsdóttir setti fundinn kl.10:15 og bauð fundarmenn velkomna. Mættir voru um 40 manns
Fundarstjóri var kosinn Njörður P. Njarðvík og ritari fundar Lena Magnúsdóttir
Njörður kynnti dagskrá fundarins: 

  1. Starfsemi Íslandsdeildar SPES - skýrsla stjórnar: Eva María Gunnarsdótttir, formaður.
  2. Umræður um skýrslu stjórnar
  3. Reikningar félagsins kynntir og bornir upp til samþykktar: Bera Þórisdóttir , gjaldkeri.
  4. Tillaga um hækkun árgjalds.
  5. Kosning stjórnar til þriggja ára: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, meðstjórnandi
  6. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til þriggja ára.
  7. Olga Sif Guðmundsdóttir sýnir myndir og segir frá upplifun sinni á heimili SPES.
  8. Önnur mál.
  9. Fundarslit.

1. Skýrsla stjórnar.  
Formaður gerði grein fyrir starfsemi félagsins. Árið 2007 var mjög gott og stórir styrktaraðilar stóðu við stóru orðin.  Bæklingur var búinn til og dreift í hús.
Sagði frá ferð Skoppu og Skrítlu til Lomé og að hún hafi verið ómetanlegt fyrir börnin þar og hérlendis. Börnin eru 87 og 37 þeirra hafa íslenska styrktarforeldra.  Hægt er að skoða ræðu formanns í heild sinni á vefnum undir greinar.
2. Reikningar 
Reikningar voru skýrðir út af Beru Þórisdóttur. Engin útgjöld og engar eignir.  Fjármagn fer bara inn og út af reikningnum og eru sendir til Frakklands.  
325.000 EUR voru sendar frá Íslandi til SPES í Frakklandi.  70% af heildartekjum koma frá Íslandi.  Reikningar eru samþykktir einróma.
3. Hækkun árgjalds.  
Styrktarforeldrar greiða ekki árgjald en aðrir félagsmenn greiða í dag 3.000.  Tillaga kom fram um að hækka gjaldið í 5.000.- Samþykkt einróma.
4. Kosning stjórnar 
Njörður þakkaði  Össuri Skarphéðinssyni fyrrverandi formanni SPES fyrir störf hans þann tíma sem hann veitti samtökunum forystu. Fram kom að það er að miklu leyti honum að þakka að SPES stendur svona vel.  Hann hefur nú dregið sig í hlé og var kjörinn heiðursfélagi í september 2007.  Tillaga kom frá stjórninni um að Ólöf Nordal taki við formennsku  og var það samþykkt einróma.  Njörður færði henni grímu frá Togó.  
Ólöf þakkaði traustið og gat þess að hún hafi lengi haft áhuga á þessu starfi.  Þegar Njörður hafði samband við hana  fannst henni þetta spennandi og var ákveðin að taka þetta að sér þó að hún léti ganga nokkuð á eftir sér.  
Tillaga var um að varaformaður yrði áfram Eva María Gunnarsdóttir, gjaldkeri Bera Þórisdóttir, ritari Lena Magnúsdóttir og meðstjórnandi Jón Sigurðsson.  Það var samþykkt einróma af fundarmönnum.
Gísli Benediktsson og Þórdís Linda Guðjónsdóttir voru kosnir skoðunarmenn reikninga.  
5. Ferð til Lóme 
Olga Sif Guðmundsdóttir sagði frá ferð sinni til Lóme. 
Hún fór ítarlega í gegnum daginn með börnunum og lýsir heimilinu sem henni þykir mjög gott. Hægt verður að skoða ferðasöguna undir greinar.
Í framhaldi af hennar frábæra fyrirlestri þakkar Njörður henni fyrir og segir frá því að  Elísa Snæbjörnsdóttir og Björn Thor Jóhannsson hafa mikinn áhuga á því að fara út.  Þau stóðu upp og kynna sig.  
6. Frásögn Njarðar  af stöðunni í Togo og aðalfundi SPES í París
Njörður sagði frá lífinu í Togo og frá fundinum í París. Hægt að sjá fundargerð aðalfundar á vefnum  á ensku undir greinar.
Heildartekjur samtakanna 2007 voru EUR 451.400.  Varasjóður er til í Frakklandi fyrir því að reka heimilið í 2 ár.  Frá því að starfið byrjaði hafa verið sendar um EUR 1.100.000.  Öllum byggingarframkvæmdum í Lóme er lokið en það á ennþá eftir að ganga frá svæðinu í kring.  Í byrjun febrúar verður allt klárt og þá á að halda veislu.
Fyrsta svefnhýsi er tilbúið í Kpalime og tvö næstu eru að klárast.  Það verður notað til að byrja með og það er verið að reyna að finna starfsfólk. Stefnt er að því að halda vígsluhátíð þar á sama tíma.  EUR 20.000 verða lagðar í að byggja leikskóla í Kpalime.  
Ákveðið var á fundinum í París að leggja fram EUR 60.000 til að byggja 6 nýjar skólastofur í Lóme.  Einnig verður lagt fram fjármagn í húsgögn.
Nú er lagt til hliðar EUR 10 á hverjum mánuði á hvert barn í menntunarsjóð þannig að þegar þau eru 18 ára þá geti þau farið í áframhaldandi nám.  
7. Ýmis mál
Spurning kemur úr sal:  Hvernig eru tengsl við samfélagið og hvernig mun þetta hafa áhrif á umhverfið þar sem aðbúnaður barnanna okkar er á margan hátt betra en annarra í kring?  Njörður: Það er rétt að þau hafa rennandi vatn, 3 máltíðir á dag,lyf og fleira.  En þau fóru ekki í einkaskóla heldur almennan skóla.  SPES- krakkar fara ekki nægilega vel með hlutina sína þar sem þau vita að þau fá nýja sem er afleitt.  Nú fara börnin að verða kynþroska og þá koma ný og önnur vandamál.  Bera sagði mikinn velvilja í hverfinu og allir væru mjög jákvæðir.  Foreldrafélagið í skólanum er hliðholt SPES og er þakklátt.  Verkamenn fá vinnu og starfsfólkið á heimilinu.  Börnin eiga vini í skólanum en leitað er eftir því  að fá fjölskyldur til að taka börnin heim til sín.  
8. Önnur mál 
Engin önnur mál á dagskrá.
9. Nýkjörinn formaður, Ólöf Norðdal sleit fundi klukkan 11:30 og þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund.