Spes-tilgangurTilgangur SPES er að veita foreldra- og vegalausum  börnum heimili. Tvö SPES heimili eru í Afríkuríkinu Tógó, hið fyrra í höfuðborginni Lóme, en hið síðara í bænum Kpalimé. Þar eru nú 180 börn sem hafa flest komið til okkar á aldrinum 2-4 ára. Í Lomé eiga 106 börn heimili í dag, þar af búa 14 unglingsdrengir í sérstöku húsi SPES fyrir unglinga. Í Kpalimé búa 74 börn.

 

Húsin í barnaþorpunum okkar eru fallega hönnuð og litrík. Þau eru úr steinsteypu og stórum múrsteinum sem gerðir eru á staðnum. Henry Apeti, arkitektinn okkar, sótti fyrirmyndina í húsahefð frá Norður-Tógó. 

Tógó er sárafátækt land. Þriðjungur íbúa er undir fátæktarmörkum. Fátækt og sjúkdómar leiða til þess að fjölmörg börn fara foreldralaus á vergang án vonar um framtíð. SPES gefur þeim von. Þú getur hjálpað. Þú getur hjálpað okkur að gefa fleiri börnum von um framtíð. Allt sem þú gefur rennur beint til umönnunar foreldralausra barna. Ekkert fer í yfirbyggingu, ferðalög eða umsýslukostnað. Allt starf SPES er án endurgjalds. Öll vinna félaganna er sjálfboðastarf. Okkur vantar framlög, styrktarforeldra og nýja félaga.

Vannærð og veikburða

Öll börnin sem til okkar koma eru mjög illa á sig komin þegar við tökum við þeim. Þau eru vannærð og full af sníkjudýrum í innyflum. Tógóskur barnalæknir kemur á hverjum laugardegi og fylgist með þeim. 
Það er gleðiefni hvað þau hafa tekið vel við sér. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá framfarir þeirra, og hversu þau geisla af heilbrigði og vellíðan. Þetta er áberandi á myndunum af börnunum sem er að finna annars staðar á síðunni. Flestum börnunum okkar gengur sæmilega í skólanum. Sum eru í fremstu röð jafnaldra sinna.
Börnin koma til SPES fyrir tilstuðlan félagsmálayfirvalda. Við óskum einungis eftir því að þau séu undir 5 ára aldri. Þá er auðveldara að samlaga þau hópnum sem fyrir er. Einnig stefnum við að því að drengir og telpur séu ámóta mörg.

Íslenska frumkvæðið

Frumkvæðið að stofnun samtakanna er íslenskt. Njörður P. Njarðvík, sem nú er prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, var ásamt vinum sínum Tógóanum Victor de Medeiros og Frakkanum Claude Voileau frumkvöðull að stofnun samtakanna.
Vinir þeirra frá Tógó vöktu máls á því hversu ótrúlega mörg börn í þróunarlöndunum byggju við hörmulegar aðstæður. Stríð, náttúruhamfarir, mikil fátækt, malaría og eyðnifaraldurinn hefur leitt til þess að fjölmörg börn verða foreldralaus og lenda á vergangi.
Þessi vinahópur, sem teygði sig um mörg lönd, varð sammála um að láta ekki sitja við orðin tóm. Hann afréð að stofna samtök sem hefðu að markmiði að hjálpa foreldralausum börnum. 

Samtökin SPES International voru stofnuð í kjölfarið í febrúar 2000 og skráð samkvæmt frönskum lögum sem góðgerðasamtök með aðsetur í rue Jules Breton 5, hjá félagsskap sem leyfir samtökunum að halda fundi þar endurgjaldslaust. SPES er í raun skammstöfun fyrir franska heitið Soutien Pour l‘Enfance en Souffrance en jafnframt merkir orðið SPES Von á latínu. Aðalfundir eru haldnir í maí ár hvert. Kosið er 19 manna fulltrúaráð til þriggja ára, sem aftur kýs sér fimm manna stjórn.

               Tógódeild SPES (sem telur um 80 manns) sér um daglegan rekstur heimilanna, allt í sjálfboðastarfi.

Hversvegna Tógó?

Sterk tengsl frumkvöðlanna við Tógó og brýn þörf fyrir hjálp handa nauðstöddum börnum leiddu til þess að fyrsta barnaþorpinu var valinn staður í Tógó. Fátækt er þar landlæg og þriðjungur íbúanna býr undir fátæktarmörkum.
Frumkvöðlarnir vissu líka að þar voru sterkir einstaklingar reiðubúnir til að vera bakhjarlar á staðnum. Sérstök Tógódeild var stofnuð á vegum SPES. Í henni eru reyndir og vandaðir einstaklingar með mikla reynslu, m.a. af heilbrigðismálum og viðskiptum. Þeir eru bakhjarlar barnaþorpanna í Lóme og Kpalimé og fylgjast náið með rekstri þeirra.

Pin It