Kæru SPES-vinir, hér koma nokkrar fréttir frá Tógó
Þriðja svefnhýsið sem Styrktarsjóður Baugs kostar og hefur greitt að fullu (6 milljónir)
er nú fullbyggt og tilbúið til notkunar. Verið er að afla nauðsynlegra húsgagna.
Nýlega bættust 4 börn í hópinn, tvö hafa fengið franska styrktarforeldra og tvö íslenska.
Þau eru því orðin 72 talsins. Um 10 börnum verður bætt við á þessu ári.
4 nýjar fóstrur verða ráðnar fljótlega, og ákveðið var á aðalfundi að efla menntun allra fóstranna.
Í Kpalimé hefur nú verið jafnaður jarðvegur fyrir fyrstu húsin og vonast er til að fljótlega verði hafist handa við fyrsta svefnhúsið ásamt öðru húsi fyrir eldhús og matsali. Fé er þegar til fyrir þessu og svefnhúsi nr. 2. Einungis stendur á arkitektinum að raða húsunum á lóðina.
Hópur reglusystkina í Alþjóða Sam-Frímúrarareglunni í Cameroun vill hefja starfsemi SPES þar undir forystu Jean Ditope Limdoume, sem gegnir sams konar embætti og ríkisendurskoðandi hér. Undirbúningur er vandaður og við Claude Voileau þekkjum þetta fólk.
Aðalfundur fól fulltrúaráðinu að ákveða um framhaldið á næsta fundi þess sem verður í París 23. september.
Skoppa og Skrítla
Leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir munu fara til Tógó í september ásamt leikstjóra og tökumönnum til að gera sjónvarpsþátt um för þeirra. Einnig fara nokkrir styrktarforeldrar héðan. Flogið verður með Air France 25. september og dvalist í eina viku. Ég mun einnig fara.

Bestu kveðjur, Njörður

Í skólanum eru 60-80 börn í hverjum bekk, og það er auðvitað alltof mikill fjöldi. Okkar var sagt að borgin kosti byggingar en ríkið sjái um kennara. Og að með nýjum kennslustofum verði bætt við kennurum. Því ákváðum við að kosta byggingu nýs húss á skólalóðinni, með tveimur kennslustofum og minni stofu að auki fyrir tölvunotkun í framtíðinni. Húsið er byggt þannig að hægt er að bæta hæð ofan á síðar, ef verkast vill. Við vonum að með tveimur nýjum kennurum verði hægt að fækka eitthvað í bekkjunum. Allt hefur þetta verið gert í samráði við skólastýruna og kennara skólans, sem hafa verið spurð um hvað kæmi að bestu notum.
Þetta hús var svo afhent formlega 19. febrúar, þá fullfrágengið að utan, en innréttingum ekki lokið. Þegar við mættum til þeirrar athafnar urðum við undrandi, því að allir nemendur skólans voru saman komnir úti í skólagarðinum ásamt foreldrum, kennurum, skólastýru, hverfishöfðingjanum og fulltrúum frá skólayfirvöldum. Börnin sungu og dönsuðu, ræður voru fluttar, og á eftir var boðið upp á svaladrykki. Þetta var mikil hátíð og ánægjuleg, og í kvöldfréttum sjónvarps var sagt ítarlega frá athöfninni. Okkar var tjáð að þetta væri í fyrsta skipti sem hjálparsamtök af okkar tagi styrktu almennan skóla í Lomé.
Við vonum að þetta hús verði til að bæta úr brýnni þörf að nokkru, en skólinn býr við mikinn varna. Einn er sá að forfallakennarar eru engir. Ef kennari veikist, hleypur enginn í skarðið. Þannig geta börnin verið kennaralaus í heila viku, ef svo atvikast. Þá koma leiðbeinendur barnanna okkar við heinmanám að miklu gagni.

NPN 

Þrír vaskir og bráðungir félagar halda þriðjudaginn 18. júlí hjólandi af stað hringinn í kringum landið til styrktar Spes. Þeir stefna á að koma aftur til höfuðborgarinnar í lok verslunarmannahelgarinnar þann 7. ágúst eftir að hafa kynnt starfsemi Spes víðs vegar um landið.

Félagarnir þrír eru þeir Gísli Hvanndal Ólafsson, Guðjón Heiðar Valgarðsson og Dagbjartur Ingvarsson. Gísli er ljóðskáld, en Guðjón og Dagbjartur skipa saman hljómsveitina Palindrome, sem þeir lýsa sjálfir sem rólegri kassagítartónlist í anda Bob Dylans.

Þrímenningarnir ætla að halda safna fé og kynna starfsemi Spes í Afríku með því að halda opnar samkomur með tónleikahaldi og ljóðalestri á áfangastöðum sínum um landið. Ókeypis verður inn en gestir hvattir til að láta af höndum rakna til Spes.

"Við viljum hvetja fólk til að kynna sér starfsemi Spes-samtakanna sem við teljum afar merkilegt og þarft framtak," sagði Gísli í stuttu spjalli við heimasíðu Spes. "Peningarnir sem við söfnun renna beint til félagsins, en okkur finnst alltof fáir vita af þeim. Við ætlum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að kynna samtökin með ferðinni."

Félagarnir fara suðurleiðina, og áforma að vera á Höfn þann 24. júlí, á Kárahnjúkum 28. júlí, á Akureyri 31. ágúst, og á Blönduósi 3. ágúst svo nokkrir áfangastaðir séu nefndir.

Hægt er að fylgjast með ferð þeirra á www.speshringur.net og hvetjum við ykkur til að styðja við bakið á þessum dugnaðarpiltum.

Kaupfélag Skagfirðinga veitir Spes-samtökunum styrk

Þremenningarnir sem lögðu af stað þann 18. júlí s.l. í hjólreiðatúr til styrktar Spes-samtökunum, sem eru að byggja barnaþorp í Tógó fyrir foreldralaus börn þar í landi, fengu í dag styrk til byggingar þorpanna frá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki. Þremenningarnir eru nú á síðasta spretti hringferðarinnar, en þeir heita Gísli Hvanndal Ólafsson, Guðjón Heiðar Valgarðsson og Dagbjartur Ingvarsson. Gísli er ljóðskáld en Guðjón og Dagbjartur skipa saman hljómsveitina Palindrome.

Mbl 14.8.2006

Spes-ferð í kringum landið lokið

Hringferð ungu hjólreiðakappanna þriggja sem hjóluðu kringum Ísland til að kynna starfsemi Spes- samtakanna lauk í gær þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri tók á móti þeim á Ingólfstorgi. Ásamt því að kynna starfsemi Spes-samtakanna söfnuðu piltarnir framlögum og áheitum fyrir samtökin.
Af því tilefni mun borgarstjórinn líka tilkynna um rausnarlega gjöf til samtakanna, en allt fé sem Spes aflar rennur til byggingar barnaþorps fyrir foreldralaus börn í Tógó í Vestur-Afríku.

Þorpið á að samanstanda af fjórum svefnhýsum, eldhúsi, matsal, tómstundahúsi og húsi fyrir skrifstofu. Þegar þessu er lokið verður fyrsta húsið (neðst til vinstri á myndinni) notað fyrir styrktarforeldra sem þar geta dvalið gegn hóflegri greiðslu.
Fyrsta húsið var fullbyggt 2003 og voru börnin þá flutt þangað. Nýja heimilið var vígt 30. október. Þá var hægt að bæta við 10 börnum og þau voru orðin 30 talsins. Í byrjun síðasta árs var búið að afla fjár fyrir byggingu næsta húss og var henni lokið að fullu í mars 2005. Elstu börnin hafa flutt þangað. Við það losnar pláss fyrir 20 börn til viðbótar. Nú eru þau orðin 52 (janúar 2006).

Verið að reisa þriðja húsið. Það verður fullbyggt um mitt ár 2006. Þá á enn eftir að reisa tvö svefnhýsi, eldhús og matsal, tómstundahús og loks hús fyrir skrifstofu um 120 börn og starfsfólk. Þar að auki á eftir að ganga frá endanlega frá útivistarsvæðinu, sem er til hægri á meðfylgjandi skipulagsteikningu Henri Apeti.