4 konur hlupu í Reykjavíkurmarþoni Íslandsbanka og söfnuðu áheitum fyrir Spes.  Þær söfnuðu samtals 72.000 krónum sem er frábært og þökkum við þeim kærlega fyrir að hlaupa fyrir SPES.

Sjá nánar á:
http://hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/nanar/4956/spes

Hérna eru nýjar myndir af börnunum í Lomé og Kpalimé

http://sites.google.com/site/spesenglish/orphanate-in-lome


http://sites.google.com/site/spesenglish/orphanage-at-kpalime

Við Njörður fórum í okkar árlegu heimsókn til Togó í janúar 2010. Að vanda var ákaflega vel tekið á móti okkur. Eldri börnin þekkja okkur orðið vel og heilsa okkur sem góðum ættingjum, eins konar afa og ömmu, Papí og Mamí. Yngstu börnin herma eftir og öll þyrstir þau í vinahót og faðmlag. Starfsfólkið hefur flest unnið þarna lengi og eru orðnir góðir vinir. Konurnar heilsa flestar með 4 kossum á Tógóvísu en karlmennirnir heilsa virðulega með handabandi að þeirra hætti. Rétta fram hægri hönd um leið og þeir taka undir handlegginn með þeirri vinstri. 

Heimilið í Lomé er nú fullbyggt, velútbúið og frágengið. Þó vantar enn svolítið meira gras og annan gróður. Nú þarf að sinna viðhaldi vel því afar rakt loftslagið fer illa með byggingar ef ekki er að gætt og 100 barna heimili gerir líka miklar kröfur um viðhald og hreinlæti.

Börnin voru öll við góða heilsu þegar við komum en þessar 3 vikur sem við dvöldum þarna voru stundum 2-3 börn sem ekki fóru í skóla vegna smálasleika eins og gengur. En daginn sem við fórum veiktist Komlavi illa og var fluttur á sjúkrahús. Síðar kom í ljós að hann er flogaveikur og mun þurfa lyfjagjöf alla ævi. Nú er gott að vita af fjárstyrk sem Skjeljungur veitti SPES til heilsugæslu. 

Á daginn eru aðeins 4 lítil börn heima að jafnaði, önnur fara í skóla, forskóla (leikskóla) , grunnskólann og 2 fara í miðskóla. Gracia litla byrjaði í haust í skóla fyrir heyrnarlausa. Þegar hún hafði verið hjá okkur um nokkurn tíma kom í ljós að hún er alveg heyrnarlaus. Hún er ákaflega dugleg og skemmtileg stúlka og tekur af miklu kappi þátt í öllu starfi. Dansar af listfengi sbr. mynd (Myndir: Lomé janúar 2010) og fer ört fram í skólanum. Skólinn bauð einni fóstrunni að sækja námskeið fyrir foreldra og fylgist annað starfsfólk með fréttum þaðan.

Börnin voru nýbúin að fá einkunnir sínar fyrir fyrstu önnina af þremur. Sumum hafði gengið vel en of mörgum ekki nógu vel. Þau verða að ná ákveðnu meðaltali yfir veturinn til að geta fluttst milli bekkja. Heimakennarar koma og aðstoða börnin við heimanámið en dugar ekki alltaf til. Bekkirnir eru ótrúlega fjölmennir. Í fyrsta bekk eru nú "bara" 70 börn í bekk, helmingi færri en áður fyrir tilstuðlan SPES sem hefur byggt kennslustofur og stutt dyggilega við skólann.

SPES hefur gert samning við hótelhaldara í Lomé sem leyfir eldri börnunum að koma í sund einstaka sinnum. Reynt er að kenna þeim að synda en mest fer nú tíminn í leik. Eldri börnin hafa líka farið í safnaferðir með styrktarforeldrum sem koma í heimsókn. 

Við héldum veislu einn daginn með börnum og starfsfólki og matreiddur var uppáhaldsréttur barnanna, foufou, sem er mauk úr enjam-rótinni, ekki mjög bragðsterkt, og kjúklingabitar og velkrydduð grænmetissósa með. Börnin borðuðu af mikilli ánægju, sumir piltanna fengu sér þrisvar á diskinn. Enjam er stór rótarávöxtur sem vex hratt en er sagður fullur af næringarefnum. Hann er afhýddur, soðinn og síðan marinn í mauk í stórum mortélum. Þetta er mikil vinna en allir tóku þátt og starfinu breytt í skemmtun. Eftir máltíðina var að sjálfsögðu dansað og sungið og taktur sleginn smástund áður en fólk síðan fékk sér eftirmiddagslúr að loknu uppvaski með þátttöku barnanna.

 

13. janúar er almennur frídagur í Togó. Þann dag kom hópur strengjabrúðuleikara í heimsókn í boði Togódeildar SPES. Vakti það mikla ánægju ekki hvað síst vegna þess að þau fengu sjálf að spreyta sig með brúðurnar og einnig dansa við stórar brúður. Á eftir fengu þau jógurtís og kökur. Svo lauk öllu með almennum söng og dansi undir trommuslætti nokkurra drengja ásamt Kokou (leikjastjóranum) og Gabriel (bílstjóra og vini). Margir meðlimir Togódeildar SPES komu í heimsókn en þeir eru nú orðnir formlega 80 talsins. Nýr formaður er dr Ashira Assih mannfræðingur. 

Reyndar koma meðlimir SPES oft í heimsókn færandi hendi, einnig ýmsir aðrir gestir háir sem lágir sem gefa matvöru, klæði og fleira eftir efnum. Ýmist er þetta fólk sem er að kynna sér starfsemina t.d. frá yfirvöldum og félagasamtökum, og svo ýmsir vinir sem njóta þess að fá að taka dálítinn þátt í starfinu.

Stjórn SPES Togo vinnur gríðarlegt starf við skipulag og eftirlit með heimilunum. Það er allt sjálfboðavinna eins og allt starf SPES fólks. Eingöngu starfsfólk sjálfra heimilinna og byggingamennirnir fá laun.

 

Í Kpalimé voru börnin 17 í janúar en síðan hafa 4 bæst við. Þau eru öll ung, 2 þau elst eru 5 ára en þau yngstu um eins árs. Þar standa yfir nokkrar byggingarframkvæmdir og starfið með börnunum erfitt þar sem lóðin er ófrágengin. Þetta er stór lóð og þau rækta mikið t.d. maís sem þau geta deilt með heimilinu í Lomé og svo alls kyns ávexti: banana, mangó, papaya og ananas.

Það hefur meira borið á malaríu meðal barnanna í Kpalimé en í Lomé e.t.v. vegna gróðursins sem er mikill bæði villtur og ræktaður. Loftslag er þó betra, þurrara, en í Lomé. Börn og starfsfólk þarna tóku okkur líka fagnandi. Börnin höfðu nánast engin leikföng og voru tilbreytingunni feginn. Atsou sá elsti greip hönd Njarðar og sagði: "Þú ert minn Papí. Vertu ekkert að skipta þér af smábörnunum". Sem betur fer gátum við bætt svolítið úr leikfangaskorti og nú er sennilega komið nóg eftir að bent var á vandamálið. Einnig hefur verið veitt fé sérstaklega til að bæta leiksvæði fyrir börnin.

Pascal Tchini, sem er frá Kpalimé en starfar sem arkitekt og skipulagsfræðingur í Lomé, er umsjónarmaður með starfinu á þessu heimili og mikill vinur barnanna. Hann sagði okkur að starfsfólkinu þætti vinnan mjög erfið en ánægjuleg. Mikil ánægja hefur ríkt í Kpalimé með starf SPES þar og borgarstjórinn er vinur og lætur sér annt umverkefnið. Ekki mun ánægjan minnka með haustinu þegar leikskólinn tekur til starfa. Hann hefur SPES byggt fyrir gjafafé frá íslenskum hjónum, en bærinn mun reka hann. Okkar börn munu svo sækja þennan skóla ásamt öðrum litlum börnum frá Kpalimé enda er nýi skólinn ekki langt frá okkar heimili.

 

Ef mögulegt er viljum við að fjölga börnum á heimilunum á þessu ári. Bæta við 4-5 börnum í Lomé og 10 í Kpalimé. Það getum við ekki fyrr en við höfum fundið styrktarforeldra og tryggt framfærslu þeirra. Við biðjum því alla þá sem geta lagt okkur lið að hafa samband. Framfærsla barns er 77 EUR á mánuði. Á núverandi gengi kostar það því 6.500 ISK ef 2 fjölskyldur taka að sér barn saman, 4.400 ISK ef fjölskyldurnar eru 3 en rúmar 13 þúsund krónur ef ein fjölskylda tekur að sér barn. Íslenskir styrktarforeldrar sjá nú um 47 barnanna, franskir og belgískir.

styrktarforeldrar um 55 en enskir, austurískir, grískir og tyrkneskir sjá einnig um börn. Alls voru börnin á heimilum SPES 114 í janúar,nú 118. Stöðugt er leitað til okkar með vegalaus fátæk börn sem þurfa heimili og umönnun. 

Bera Þórisdóttir

Kæru styrktarforeldrar:

Mig langar að biðja ykkur að senda börnum ykkar eitthvert lítilræði fyrir jólin, þótt ekki væri nema kort.

Þau gleðjast ákaflega ef þau fá póst.

Við viljum líka helst að börnin eigi myndir af styrktarforeldrum sínum og fjölskyldum þeirra.

Þau þurfa að vita að þau eigi einhverja að.

Það er þeim ákaflega mikilsvert.

 

Bréf skal stíla á forstöðukonurnar, því að póstur er ekki borinn út í Tógó, allt fer í pósthólf,

og ekki fást afhent bréf nema til þess sem bréfið er stílað á.

Síðan þarf að merkja bréfið einnig barninu, eða hafa tvö umslög.

 

Með góðum kveðjum og þakklæti fyrir allan stuðninginn, Njörður

 

Mme Immaculée Dede Ameganvi
Directrice de la maison SPES
BP 20 324
LOME
TOGO

Mme Berthe Amedzro ADJOAVI

Directrice de la maison SPES

260 BP 459

KPALIME

TOGO

Kæru SPES-vinir:

Hér eru nokkrar fréttir frá Tógó.
Börnin kjósa formenn og umsjónarmenn svefnhýsa
 
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp á heimil SPES í Lomé, að öll börn á skólaaldri kjósa úr sínum hópi formenn og varaformenn til tveggja ára, annars vegar fyrir drengi og hins vegar fyrir stúlkur. Bregðist þeir hlutverki sínu má kalla saman nýjan kosningafund.
Þetta er gert til að auka ábyrgð barnanna og gefa þeim jafnframt kost á að ráða ráðum sínum sjálf
að nokkru leyti.
Úr hópi stúlkna voru kosnar Viviane Wilson (11 ára) formaður og Lucie Hounsiga (11 ára) varaformaður.
Úr hópi drengja voru kosnir Komlavi Nana (11 ára) formaður og Richard Mensah (12 ára) varaformaður.
Öll hafa þau staðið sig vel í skóla og Lucie og Richard eru ein komin í miðskóla (College).
Hins vegar hefur Richard þótt vera nokkuð uppreisnargjarn.
Hlutverk formanna er:
1)  Að fylgjast með almennri umgengni og hvernig börnin fara með föt, skó, skólatöskur, bækur, stílabækur, penna, liti, strokleður o.s.frv.;
2)  að börnin búi um rúmið sitt og taki til í herbergi sínu (í samráði við umsjónarmann svefnhýsis);
3) klæðnaði og þrifnaði;
4) að börnin sýni öðrum virðingu og kurteisi, öðrum börnum, fóstrum, „frændum“ (karlmönnum sem starfa á heimilinu),forstöðukonu, aðstoðarforstjóra, barnalækni, sálfræðingi, leiðbeinendum við heimanám, gestum;
5) að börnin valdi engum skemmdum, hvorki í svefnhýsi, matsal eða annars staðar.
6) Formaður tekur þátt í að skipuleggja ferðir barnanna, svo sem í skólafríum.
7) Mælir með umbun fyrir góða hegðun og árangur í skóla.
8) Mælir með refsingum fyrir óhlýðni og/eða skemmdir. 

Umsjónarmenn svefnhýsa voru kosnir:
1. Akodou (stúlkur 2-5 ára) Jusine Welike og Ayawa Sowou
2. Adouba (drengir 3-6 ára) David Zoglo og Julien Gambiglo
3. N‘ti (drengir 6-12 ára) Félix Tronou og Patrice Hounsiga
4. Blafogbe (stúlkur 6-12 ára) Martha Nana og Elise Sowou
Hlutverk umsjónarmanna er að fylgjast með allri umgengni og þrifnaði, ennfremur að svefntími sé virtur.
Umsjónarmenn mæla með umbun og/eða refsingum eftir atvikum.
Er vonast til að þessi nýbreytni auki ábyrgð og bæti almenna hegðun.

Skólastarf
Ecole Primaire Publique de Kélégougan – almennur skóli hverfisins.
Helsta áhyggjuefni hefur verið óheyrilegur fjöldi í bekkjum og áhrif þess á námsárangur, enda voru allt að 146 nemendur í bekk. Þess vegna hefur SPES byggt níu nýjar skólastofur, lagt rafmagn og gefið ný húsgögn. Þetta hefur nú skilað sér í auknum fjölda kennara, sem skólamálaráðherra Tógó hefur staðið fyrir að okkar beiðni.
Nú eru ekki fleiri en 46 til 72 í bekk. Það þykir okkur enn of mikið, en er samt mikil framför, og árangur barna okkar hefur batnað nokkuð. Þetta hefur einnig í för með sér að börnum SPES er dreift í fleiri bekkjardeildir og umgangast því fleiri börn utan heimilisins.
Við vonum að fleiri kennarar og bekkjardeildir skili betri námsárangri fyrir alla nemendur skólans.

Skýrsla sálfræðingsins
Barnasálfræðingur okkar, Rissikatou Salifou-Ouiro-Sama, hefur nýlega sent okkur skýrslu.
Þar greinir hún frá hegðunarvandamálum og tilgreinir hugsanlegar lausnir.
Tvö dæmi eru um ofvirkni og athyglisbrest, sem leiðir af sér óhlýðni og skort á aga.
Einn drengur sýnir ákveðin einkenni sálrænna vandamála og getur t.d. ekki stjórnað þvagi á eðlilegan hátt,og verður hann sendur í frekari rannsókn hjá barnalækninum, dr. Assismadi, sem ber ábyrgð á líkamlegu heilsufari barnanna.
Að öðru leyti eru börnin við góða heilsu, þótt nokkuð hafi verið um lasleika, eins og búast má við
í svo stórum barnahóp – svo sem hálsbólgu, magaverkjum, kýli, malaríu, eyrnabólgu, hlaupabólu, 
meiðslum á hné og framhandlegg.
 
Styrktarforeldra vantar
SPES vantar fleiri styrktarforeldra. Eitt barn sem áður átti íslenskra styrktarforeldra, fær nú greiðslur úr almennum sjóði.
Okkur vantar því styrktarforeldra fyrir það. Og einnig til þess að geta fjölgað börnum í Kpalimé.
Okkur er ljóst að þetta er orðið dýrt vegna lágs gengis krónunar, um 14.000.
Við stingum því upp á því að fleiri en einn sé um barn, t.d. tvenn vinahjón, systkin eða vinir,
en ekki fleiri en fjórir einstaklingar um hvert barn.
Við biðjum því um aðstoð að finna nýja styrktarforeldra.
Hafið samband við Beru, gjaldkera Íslandsdeildar SPES This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it." style="font-family: Arial, Helvetica, sans-serif; text-align: left; ">This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sími 561 2366 & 692 1286.  
Þar sem ég hef nú látið af formennsku í SPES International, vil ég nota þetta tækifæri til að þakka ykkur öllum fyrir stuðning við þetta góða málefni.
Ég vona að þið haldið áfram að efla svo brýnt og gagnlegt starf.

Með bestu kveðjum,
Njörður.