Endilega fylgist með þeim. Þær ætla að búa í barnaþorpinu í Lóme og gera heimildarmynd um börnin okkar.

http://annaogastaitogo.wordpress.com/

Spes barnahjálp sendir styrktarforeldrum,félögum og velunnurum hugheilar óskir um gleðileg jól og farsælt,friðsamt ár með einlægum þökkum fyrir stuðning við vonarbörnin okkar í Tógó og Kpalimé.

Nýtt skólaár hófst hjá börnunum á SPES heimilunum tveimur þann 13. September.

Í Lomé fara 69 börn í barnaskóla hverfisins, Kélégougan 35 drengir og 34 stúlkur.

Þau dreifast á 7 deildir eða árganga en þar sem þau verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að flytjast upp á milli deilda fer það ekki alveg eftir aldri. Þau geta sem sé „fallið" strax í barnaskóla.

Þau dreifast í bekki innan deildanna og eru 60 – 80 börn í bekk með einum kennara. Það eru miklar framfarir því áður en SPES hjálpaði til og byggði 9 skólastofur voru iðulega 100-120 börn í bekk og oft fór kennslan fram úti undir stóru mangótré í garðinum. 

6 börn í Lomé eru nú komin í miðskóla 4 drengir og 2 stúlkur. Við vitum ekki hve stórir bekkirnir eru þar en þeir eru örugglega mjög stórir.

Í leikskólanum Crech‘ma verða 24 börn frá SPES , 12 drengir og 11 stúlkur. Ein stúlka fer í skóla fyrir heyrnarskerta. Í leikskóla eru börnin 2-5 ára. Crech‘ma er einkarekinn skóli en grunnskólinn er ríkisrekinn.

Á SPES heimilinu í Lomé eru það aðeins 2 börn sem eru of ung til að fara í leikskólann.

 

Í Kpalimé eru nú 30 börn 16 stúlkur og 14 drengir. Þau fara nú í fyrsta sinn í skóla , tvö í barnaskóla og að minnsta kosti 19 í leikskóla. Í júní var gert ráð fyrir að 4 börn yrðu heima þar sem þau eru of ung. En á síðustu 4 vikum hafa bæst við 5 börn en við vitum ekki enn hvort einhver þeirra fara í skóla. 

Skólagöngunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Leikskólinn tók til starfa 13. september. Hann er alveg nýr og hefur aldrei verið leikskóli áður í þessum bæ. Skólinn er gjöf frá íslenskum hjónum og var byggður undir eftirliti SPES Togo. Hann verður rekinn af bæjarfélaginu og í hann munu fara börnin frá SPES og börnin úr bænum. 

 

Starf leikskólanna sem börnin okkar fara í er mjög svipað því sem við eigum að venjast á Íslandi. Leikur og kennsla í bland, eins konar forskóli. En húsakynni eru þrengri og minna af leiktækjum og leikföngum. Kennararnir eru sérstaklega þjálfaðir. Þau eru í skólanum frá 8.30 til 17 og eru í sérstökum skólabúning. Þau taka með sér nesti að heiman og allir taka sér hvíld í einn og hálfan til tvo tíma um miðjan daginn. Meiri hluti barna í Togó á þess ekki kost að fara í leikskóla.

Grunnskólinn (frá 6 ára aldri) og Miðskólinn eru ríkisreknir og þar eru engin skólagjöld. Börnin þurfa samt að geta átt einfaldan skólabúning og foreldrarnir borgað fyrir eina verkefnabók á vetri. Einnig þurfa þau að eiga lítið töfluspjald og krítar ásamt blýanti og penna þegar lengra er komið. Þeir kennarar sem við höfum kynnst eru menntaðir og ágætlega að sér og hugsa mikið um kennsluaðferðir. Kennslugögn eru afar fábrotin. Kennararnir eyða miklum tíma í hverri viku í að skrifa og teikna námsefnið á töfluna. Önnur námsgögn eru nánast óþekkt. Í þessum stóru bekkjum ríkir mikill agi – allt að því heragi. Og strangt er tekið á agabrotum. Líkamlegar refsingar eru þó bannaðar með lögum. En einn kennari með 60-100 börn getur ekki haft tíma til að sinna einstaklingunum vel og sjá til þess að þau læri. Þeir hafa komið sér upp ákveðnu kerfi til að láta börnin sjálf aðstoða við að fylgjast með hvernig vinnan gengur og til að láta þá lötu taka fram verkefni sín. Í Togó er ekki skólaskylda, en allir eiga kost á að minnsta kosti grunnskóla ef þeir uppfylla ofangreind skilyrði. Þessi skilyrði eru mörgum fjölskyldum ofviða og margir foreldrar þurfa á aðstoð eldri barna við að gæta yngri systkina eða jafnvel hjálpa til við að framfleyta fjölskyldunni.

Í Togó eru töluð að minnsta kosti 5 tungumál af afrískum uppruna en franska er opinbert mál. Börnin á heimilum SPES eru flest tvítyngd. Þau yngri tala gjarnan Mina sín á milli og við „mömmurnar" en í leikskólanum og grunnskólanum er lögð áhersla á að kenna þeim opinbera málið, frönsku. 

Í Miðskóla geta börnin farið eftir 5-6 ár í grunnskóla, ef allt gengur vel. Miðskólinn er 4 ár og að honum loknum fara nemendur í framhaldsskóla, iðnskóla eða menntaskóla, ef þau halda áfram skólagöngu. Styrktarforeldrar SPES greiða í sérstakan menntunarsjóð fyrir börnin svo þessi börn munu eiga kost á því að halda áfram námi ef hæfileikar og hugur stefnir til. Ef þau halda ekki áfram námi munu þau, eftir sem áður, verða styrkt til að aðlagast sjálfstæðu lífi í Togósku samfélagi.

Sumarfrí barnanna í Togó 2010

Flest eldri börnin á heimili SPES í Lomé áttu þess kost að dvelja á einkaheimili vina eða ættingja í 2 vikur í sumarfríinu. Þau börn sem hafa einhver tengsl við ættingja gátu sum dvalið hjá þeim en SPES greiddi fyrir fæði. Þá fengu sum barnanna að dvelja á einkaheimilum starfsfólks eða ættingja þeirra og margir meðlimir í SPES Togó buðu barni að dveljast hjá sér þennan tíma. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert en markmiðið er að gefa börnunum kost á að kynnast venjulegu Togósku heimili um leið og þau fá tilbreytingu og hvíld frá fjölmennu barnaheimili. Við höfum lengi reynt að koma á tengslum við „vinafjölskyldur" í þessum tilgangi. Þetta virðist hafa gengið vel þó enn hafi ekki borist sérstök umsögn.

Í sumarfríinu fóru grunn- og miðskólabörnin á sumarnámskeið þar sem kenndar voru venjulegar skólagreinar hálfan daginn. Það fór fram í einkaskóla í nágrenninu. 

15 börn frá heimilinu í Lomé, sem ekki áttu kost á að dvelja hjá vinafjölskyldu í sumarleyfi, fóru og dvöldu á heimili SPES í Kpalimé. Var það mikil tilbreyting og skemmtun fyrir jafnt börnin í Kpalimé sem börnin frá Lomé. Þau fóru í leiðangra um nágrennið og gafst tækifæri til að uppgötva náttúruna í sveitinni, og gróðursældina á heimilinu sjálfu. Heimilið er ekki fullbyggt og er auk þess á stórri lóð svo þar fer fram veruleg ræktun ávaxta og grænmetis. 

Í vor og sumar dvöldu á heimilinu í Lomé 5 nemar frá Evrópu og einn frá Bandaríkjunum, 1-2 vikur í senn. Þetta voru sjálfboðaliðar og þau aðstoðuðu við þau störf sem til féllu en einkum aðstoðuðu þau tómstundakennarann. Flest voru þau 3 í einu. Börnin eru mjög ánægð með að kynnast þessu fólki og nemarnir, sem gefa skýrslu um dvöl sína, fagna þessu einstaka tækifæri.