Minn gamli kennari við HÍ, Njörður P. Njarðvík er einn fárra kennara við HÍ sem ég held sambandi við - enda snilldarkennari og sá sem lagði grunninn að áhuga mínum á skapandi skrifum og skilningi og túlkun bókmenntatexta og ljóða. En Njörður á sér annað andlit en það sem við þekkjum best; þ.e. andlit fræðimannsins, rithöfundundarins  og háskólamannsins. Njörður er er hugsjónamaður og hefur með eldmóði sínum lyft Grettistaki í málefnum fátækra og foreldralausa barna í Tógó í Afríku. Hann stofnaði samtökin SPES á Íslandi sem hefur það markmið að bæta líf munaðarlausra barna í Tógó. Mér bauðst að gerast meðlimur í SPES og borga með bros á vör mánaðarlega upphæð sem nemur verðgildi tveggja pítsa fyrir fjölslylduna mína. Það sem einkennir SPES umfram annan sambærilegan félagsskap er sú staðreynd að ekki einni krónu af söfnunarfé SPES er eytt í kostnað. Njörður og félagar hans Í SPES greiða sjálfir allan kostað við rekstur félagsins á Íslandi, þar á meðal ferðir til Tógó, úr eigin vasa. Þetta hugsjónarstarf er ekki bara sérstakt - heldur aðdáunarvert. Ég er því stolt af því að vera SPES með Nirði, mínum góða kennara,  og mun fylgjast spennt með börnunum "mínum" í Afríku. Fyrir áhugasama, bendi ég á heimasíðu SPES sem er:www.spes.is og hvet alla til þess að styðja SPES og vera þannig beinn þátttakandi í þessu stórkostlega uppbyggingarstarfi í þágu munaðarlausta barna.

Ragnheiður Davíðsdóttir www.ranka.blog.is

Kpalimé-Mynd af lóðinni.
 

Í lok liðins árs fékk SPES úthlutað ókeypis byggingarlóð í bænum Kpalimé, ca. 65.000 manna bæ 120 km norðvestur af Lomé, nærri landamærum Ghana.
Lóðina er um einn hektari að stærð, eða tvöfalt stærri en lóðin okkar í Lomé. Það verður því rúmt um okkur. Þetta er fallegur staður með eilitlum halla og þar standa nokkur stór og falleg tré, sem við viljum varðveita. Barnaskóli er í göngufæri, lítill skóli þar sem eru aðeins um 15-20 nemendur í bekk, en húsið er ákaflega frumstætt – og ekkert rafmagn. Framhaldsskóli er líka í göngufæri, svo að lóðin er á góðum stað, í útjaðri bæjarins. Að lokinni skoðunarferð bauð bæjarstjórinn okkur til hádegisaverðar á litlu veitingahúsi, og lét skemmta okkur með söng og dansi heimamanna.
Vegna hins höfðinglega styrks frá Glitni,  getum við þegar hafið byggingu tveggja svefnhýsa og eldhúss með borðstofum. Þegar er byrjað að reisa múr umhverfis lóðina, og við báðum Henri Apeti, arkitektinn okkar, að setja niður hús með skipulag lóðarinnar fyrir augum. Við ætlum að nota sömu teikningar og hafa húsin alveg eins og í Lomé. Hann er seinvirkur og það var ekki fyrr en kvöldið sem við fórum að við fengum drög hans að tilllögu. Jakob, byggingameistarinn okkar, hefur þegar ráðið heimamenn í byggingarvinnu, og verður hafist handa við að reisa húsin strax og endanlega hefur verið gengið frá skipulagi.
 

Bestu kveðjur, Njörður 

Forseti: Faure Gnassingbe kosinn 24.4.2005 með um 60% atkv.

Forsætisráðherra: Edem Kodjo

Utanríkisráðherra: Zarifou Ayéva

Þjóðþingið: kosið til 5 ára, landið eitt kjördæmi;81 þingmaður, stjórnarflokkur RPT (Rassablement du Peuple Togolais) 72 sæti, stjórnarandstöðuflokkar 9; alger aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds, ráðherra getur ekki verið þingmaður samtímis. Stjórnmálaflokkar eru 6, að auki 17 flokksbrot.

Stærð: 56.000 km2, skipt í 5 meginhéruð; strandlengja 56 km.

Höfuðborg: Lomé, íbúar tæp milljón

Þjóðin: 5.5 miljónir; 43% undir 15 ára; lífslíkur 57 ár; ungbarnadauði 67.6 af 1000; fólksfjölgun 3.1%; ólæsi 40%; 51% andatrúar, 29% kristnir, 20% múslimar; 71% búa í sveit.
Opinber tungumál: franska, ewé, kabyé.
Þjóðartekjur einstaklings: USD 340; 32% undir fátæktarmörkum.
Helstu útflutningsvörur: fosfat, kaffi, kakó, baðmull.

Söguágrip: Uppruni óljós, þjóðflokkar Ewé frá Nigeriu og Benin og Mina og Guin frá Ghana settust að á svæði milli fljótanna Volta og Mono. Þjóðverjar gerðu samning við ættarkónga 1884 og slógu eign sinni á landið og kölluðu Togoland, innleiddu þýsku sem opinbert mál og þýska lífshætti sem fyrirmynd. Eftir ósigur Þjóðverja 1918 skiptu Bretar (vesturhluti) og Frakkar (eystri hluti) landinu á milli sín með reglustriku. Á einum degi voru breskir og franskir lífshættir og tungumál neydd upp á klofið ríki. Vestari hlutinn sameinaðist síðar Ghana og eftir varð mjó landræma, ríkið Togo (sem hefði með réttu aldrei átt að verða til, enda höfðu íbúar Togolands ekkert um ríkjaskipan að segja). Togo varð sjálfstætt 27. apríl 1960. Sylvanus Olympio, fyrsti forsetinn var drepinn í fyrsta valdaráni Afríku 1963 og við tók mágur hans Nicolas Grunitzky. 1967 tók Gnassinbé Eyadema völdin og stjórnaði framan af með harðri hendi. Hann lét þó undan þrýstingi, leyfði stjórnmálaflokka, hélt kosningar og var síðast endurkjörinn forseti 2002 með 57% atkvæða.
Eyadema lést 5. febrúar sl.

Heimasíða: www.republicoftogo.com