Fjölmennt i barnaþorpinu.

Nú eru komin fjögur ný börn a heimilið, Dora,sex mánaða og svo þrjú sem eru fimm ára, Mary(sjá mynd) og tviburarnir Atsu og Atsupe. Oftast koma börn ekki a heimilið fyrr en þau eru orðin eins árs. Krökkunum finnst Dora litla því mjög spennandi og vilja skoða hana frá toppi til táar. Það er reyndar ekki alveg jafn sniðugt hvað þeim finnst göngugrindin hennar spennandi því helst vilja þau hlaupa með hana i hringi og jafnvel klessa á, með Doru litlu innbyrðis. Fóstrurnar passa því að fylgjast vel með Doru öllum stundum. Mary var mjög viðkvæm fyrstu dagana sína a heimilinu. Hún grét mikið og vildi mest vera ein. Elstu stelpurnar voru ofsalega góðar við hana og tóku hana i raun að sér. Núna er hún öll að koma til, hún er byrjuð a leikskólanum og ég er farin að sjá glitta i bros af og til. Atsu og Atsupe komu i gær og eru því enn mjög óörugg. Það er samt ótrúlegt að sjá hvað börnin aðlagast fljótt og maður sér dagamun a þeim.

Í dag er laugardagur, þá er vanillubúðingur/drykkur i morgunmat og couscous i hádeginu. Helgarnar eru sérstaklega skemmtilegar þar sem þá eru dregin fram hjól og önnur leikföng sem almennt bíða inni á virkum dögum. Um helgar kemur líka Kokue sögumaður, dansar og syngur með krökkunum og kennir þeim sögur og leikrit. Mér finnst hans hlutverk á heimilinu mjög jákvætt. Á meðan fóstrurnar eru meira í að sjá um að klæða og fæða börnin sér hann um að vera skemmtilegur og veita þeim auka athygli sem þau þurfa svo mikið á að halda. Á morgun verður farið i sund en krakkarnir hafa stundum fengið að busla i sundlaug a hóteli hérna í Lome og þykir það einstaklega skemmtilegt. Nú eru örfáir dagar í að ég fari heim. Ég er spennt að koma heim en ég á samt erfitt með að ímynda mér að ég eigi ekki eftir að geta séð börnin. Ég mun ekki byrja daginn á að baða og klæða litla kroppa, fylgja eldri krökkunum í skólann, ég mun ekki heyra "bonne nuit" hvíslað við gluggann minn a kvöldin. Það er samt gott að vita að lítið breytist þegar ég fer. Börnin halda áfram að vaxa og dafna og verða að glæsilegum einstaklingum. Ég vona bara að ég fái að kíkja aftur i heimsókn einhvertíma seinna og fái að sjá sömu brosin, bara a stærri andlitum.

Pin It