Fréttir frá Tógó

Alveg að koma apríl...
Þá er ég búin að vera sem sjálfboðaliði hérna i barnaþorpinu i Lóme i tvo mánuði. Ég a enn einn mánuð eftir áður en ég held aftur heim a klakann og ætla ég mér að nýta þann tíma vel. Svona tækifæri býst ég ekki við að fá aftur i bráð. Þetta er búið að vera reynsla, bæði erfið og skemmtileg, en fyrst og fremst eru það forréttindi að fá að kynnast öllum þessum frábæru börnum. 
Núna er miðvikudagur og klukkan að ganga níu. Börnin eru farin i skólann og leikskólann og aðeins yngstu börnin eru eftir a heimilinu. Þau taka sér lúr a milli átta og níu svo þá nýti ég tækifærið og kíki a netkaffi. Í dag er ég heppin, það er rafmagn og netsamband sem er nokkuð hraðvirkt meira að segja.
Páskafríið
Páskafríinu var að ljúka en það var ofsalega skemmtilegur tími og mikil tilbreyting að hafa svona fjölmennt á heimilinu yfir daginn. Frítíminn fór að mestu i leik. Börnin eiga nóg af dóti, fótbolti er i miklu uppáhaldi en einnig er mikið sungið og dansað og stelpurnar kunna heilan helling af “klappleikjum”. Einn eftirmiðdag i fríinu kom i heimsókn danshópur sem spilaði og dansaði fyrir börnin og starfsfólkið. Það var glæsileg sýning, eins og 17. júní skemmtiatriði sérstaklega fyrir þau. Allir á heimilinu fengu að taka virkan þátt i sýningunni og börnin dönsuðu með.
Frítíminn fór þó ekki allur i leik, það var líka unnið. Börnin hjálpa til við nánast öll húsverk, þau þvo (í höndum), sópa, skúra, hjálpa til i eldhúsinu og svo hjálpa þau eldri til við að annast þau yngri. Ég veit að foreldrar mínir hefðu gapað hefðu þau séð mig vinna eins vel og börnin gera, 9-10 ára gömul!
Ný börn a heimilið
Þegar ég kom fyrst i enda janúar voru systkini, stelpa og strákur, ný komin a heimilið. Síðan þá hafa bæst við þrír strákar, nú síðast David sem er 4. ára.
Það er ótrúlegt að sjá hversu fljót börnin aðlagast. Þau eru hlédræg og viðkvæm fyrst en eftir nokkra daga eru þau orðin kát og farin að leika sér við hin börnin. Stundum má þó sjá að nýju börnin kunna ekki allar reglur heimilisins. Þetta er fjölmennt heimili og nauðsynlegt að hafa reglur svo hlutirnir gangi vel fyrir sig. Börnin þekkja reglurnar og stundum er merkilegt að sjá jafnvel þau allra minnstu sitja kyrr þegar til þess er ætlast, koma um leið og kallað er á þau, ganga frá matardisknum sínum eftir máltíðir o.s.frv. 
Hop litli sem kom i febrúar kann t.d. ekki allar reglurnar. Þegar börnin sitja i rólegheitunum á þar til gerðum mottum og leika sér með bangsa eða kubba, finn ég Hop oftar en ekki a ráfi, að borða blóm eða drekka vatn hjá húsverðinum. Hann kemur mér sífellt til að hlægja með uppátækjum sínum en hann er samt smám saman að læra og það er gaman að fá að fylgjast með framförunum.
Jæja, klukkan er víst orðin níu og þau litlu að vakna, þá er best að drífa sig heim. Eldri börnin koma svo heim í hádeginu til að borða svo það þarf líka að undirbúa mat. 
Með bestu kveðju frá Lóme
Olga

Pin It