Kpalimé-Mynd af lóðinni.
 

Í lok liðins árs fékk SPES úthlutað ókeypis byggingarlóð í bænum Kpalimé, ca. 65.000 manna bæ 120 km norðvestur af Lomé, nærri landamærum Ghana.
Lóðina er um einn hektari að stærð, eða tvöfalt stærri en lóðin okkar í Lomé. Það verður því rúmt um okkur. Þetta er fallegur staður með eilitlum halla og þar standa nokkur stór og falleg tré, sem við viljum varðveita. Barnaskóli er í göngufæri, lítill skóli þar sem eru aðeins um 15-20 nemendur í bekk, en húsið er ákaflega frumstætt – og ekkert rafmagn. Framhaldsskóli er líka í göngufæri, svo að lóðin er á góðum stað, í útjaðri bæjarins. Að lokinni skoðunarferð bauð bæjarstjórinn okkur til hádegisaverðar á litlu veitingahúsi, og lét skemmta okkur með söng og dansi heimamanna.
Vegna hins höfðinglega styrks frá Glitni,  getum við þegar hafið byggingu tveggja svefnhýsa og eldhúss með borðstofum. Þegar er byrjað að reisa múr umhverfis lóðina, og við báðum Henri Apeti, arkitektinn okkar, að setja niður hús með skipulag lóðarinnar fyrir augum. Við ætlum að nota sömu teikningar og hafa húsin alveg eins og í Lomé. Hann er seinvirkur og það var ekki fyrr en kvöldið sem við fórum að við fengum drög hans að tilllögu. Jakob, byggingameistarinn okkar, hefur þegar ráðið heimamenn í byggingarvinnu, og verður hafist handa við að reisa húsin strax og endanlega hefur verið gengið frá skipulagi.
 

Bestu kveðjur, Njörður 

Pin It