Það var líf og fjör á heimilum SPES í Tógo þegar við, Njörður og Bera, ásamt styrktarforeldrunum Unni Jónsdóttur og Vésteini Ólasyni heimsóttum þau í september. Skólabyrjun hafði verið frestað til 17. október af óskýrðum ástæðum. Fáein börn höfðu því fengið að dvelja lengur í heimsókn til ættingja eða vina. Stálpuð börn höfðu að vanda farið til 2-3 vikna dvalar hjá vinveittri fjöldkyldu svo þau fengju tækifæri til að kynnast daglegu lífi hjá venjulegu fólki en fjölskyldan á heimilum SPES er afar stór, 102 börn í Lomé og 76 börn í Kpalimé

Í fríum skipuleggur starfsfólkið á heimilunum ýmiss konar viðburði til fróðleiks og afþreyingar og einnig námskeið til undirbúnings fyrir nýtt skólaár. Aðallega námskeið í frönsku, lestri og öðrum undirstöðugreinum og svo handverksnámskeið t.d. saumanámskeið, batiknámskeið og fleira. Hvert tækifæri er líka gripið til að dansa og syngja.

togo2016   IMGP1490

Almennt gekk börnunum heldur betur í skólanum á síðasta ári en nokkuð misjafnt eftir aldurshópum. Starfsfólkið endurskipulagði heimanámið með börnunum og tók þátt í sérstöku átaki til að bæta árangur. Aðalvandamálið er að bekkir eru oft mjög stórir, hörgull á kennurum og svo er tungumálavandi sem skólinn tekur ekki mikið tillit til. Börnin verða að vera tvítyngd , öll kennsla fer fram á frönsku meðan yngri börn tala helst Ewe eða Mina sín í milli.


Nú fer að líða að því að elstu börnin 8 sem byrjuðu hjá SPES 2002 fari meira út í lífið. Ein stúlka sem lauk starfsnámi á hóteli er farin að heiman en heldur þó einhverju sambandi við SPES. Einn drengur ætlaði að ljúka stúdentsprófi í vor og fara til háskólanáms í Lomé – náði ekki endanlegu prófi og þarf að endurtaka en gefst ekki upp og heldur enn við drauma sína. 5 börn eru í framhaldsskóla, ein þeirra ætlar að ljúka verslunarprófi og verða bókari, einn dreymir um einhvers konar tölvunám annar segist ætla að verða dýralæknir. Ef þau standa sig mun menntunarsjóðurinn okkar gera þeim mögulegt að uppfylla drauma sína. Nokkur önnur börn munu væntanlega fara í eitthvert starfsnám á allra næstu árum.

IMGP1518

   Heilsufar er í heildina gott og vel fylgst með því. Á    heimilunum eru þó fáein langveik börn, t.d. hafa 3 reynst  flogaveik og fá lyf við því, ein stúlka býr við sérkennilegan  hrörnunarsjúkdóm og önnur búa við einhverja minniháttar      fötlun eða þroskahömlun. Aðal heilsuvandinn er malaría,  einkum   í Kpalimé þar sem er meiri gróður og þar af leiðandi  meira um  skordýr. Vel er gætt að því að veita lyfjameðferð  um leið og  malaría greinist og þannig tekst oft að koma í veg  fyrir að þau  verði meira en smálasin.

 Heimilin eru hrein og falleg og vel við haldið, þó sáum við að  það er kominn tími til að mála og laga ýmislegt innanhúss í  Lomé. Þar sem loftslag er betra og jarðvegur frjósamari í  Kpalimé var þar mun meira blómaskrúð en í Lomé. Þar er líka  reynt að rækta ýmsar matjurtir, nú í september hafði verið  sáð til baunaræktar sem var að koma vel til. Minna er þar um     ávaxtarækt en áður því leiksvæði hafa verið stækkuð.

Í Lomé er verið að ljúka byggingu húss fyrir unglingsdrengi á lóð nálægt aðalheimilinu. Stúlkurnar verða enn um sinn á aðalheimilinu eins og í Kpalimé. Það þykir öruggara og einfaldara.

SPES hefur fest sig í sessi á þessum 2 stöðum, Lomé og Kpalimé, og þeim er vel tekið. SPES á marga góða vini meðal nágranna og ættingja barnanna sem koma í heimsókn færandi stórar og smáar gjafir, matargjafir og fatnað. Einnig koma einstaka sinnum fulltrúar innlendra og erlendra góðgerðafélaga færandi hendi, oftast er um að ræða eitthvað hagnýtt eða heilsusamlegt en líka skemmtiefni við og við.

IMGP1536IMGP1581

Pin It