Við Njörður fórum í okkar árlegu heimsókn til Togó í janúar 2010. Að vanda var ákaflega vel tekið á móti okkur. Eldri börnin þekkja okkur orðið vel og heilsa okkur sem góðum ættingjum, eins konar afa og ömmu, Papí og Mamí. Yngstu börnin herma eftir og öll þyrstir þau í vinahót og faðmlag. Starfsfólkið hefur flest unnið þarna lengi og eru orðnir góðir vinir. Konurnar heilsa flestar með 4 kossum á Tógóvísu en karlmennirnir heilsa virðulega með handabandi að þeirra hætti. Rétta fram hægri hönd um leið og þeir taka undir handlegginn með þeirri vinstri. 

Heimilið í Lomé er nú fullbyggt, velútbúið og frágengið. Þó vantar enn svolítið meira gras og annan gróður. Nú þarf að sinna viðhaldi vel því afar rakt loftslagið fer illa með byggingar ef ekki er að gætt og 100 barna heimili gerir líka miklar kröfur um viðhald og hreinlæti.

Börnin voru öll við góða heilsu þegar við komum en þessar 3 vikur sem við dvöldum þarna voru stundum 2-3 börn sem ekki fóru í skóla vegna smálasleika eins og gengur. En daginn sem við fórum veiktist Komlavi illa og var fluttur á sjúkrahús. Síðar kom í ljós að hann er flogaveikur og mun þurfa lyfjagjöf alla ævi. Nú er gott að vita af fjárstyrk sem Skjeljungur veitti SPES til heilsugæslu. 

Á daginn eru aðeins 4 lítil börn heima að jafnaði, önnur fara í skóla, forskóla (leikskóla) , grunnskólann og 2 fara í miðskóla. Gracia litla byrjaði í haust í skóla fyrir heyrnarlausa. Þegar hún hafði verið hjá okkur um nokkurn tíma kom í ljós að hún er alveg heyrnarlaus. Hún er ákaflega dugleg og skemmtileg stúlka og tekur af miklu kappi þátt í öllu starfi. Dansar af listfengi sbr. mynd (Myndir: Lomé janúar 2010) og fer ört fram í skólanum. Skólinn bauð einni fóstrunni að sækja námskeið fyrir foreldra og fylgist annað starfsfólk með fréttum þaðan.

Börnin voru nýbúin að fá einkunnir sínar fyrir fyrstu önnina af þremur. Sumum hafði gengið vel en of mörgum ekki nógu vel. Þau verða að ná ákveðnu meðaltali yfir veturinn til að geta fluttst milli bekkja. Heimakennarar koma og aðstoða börnin við heimanámið en dugar ekki alltaf til. Bekkirnir eru ótrúlega fjölmennir. Í fyrsta bekk eru nú "bara" 70 börn í bekk, helmingi færri en áður fyrir tilstuðlan SPES sem hefur byggt kennslustofur og stutt dyggilega við skólann.

SPES hefur gert samning við hótelhaldara í Lomé sem leyfir eldri börnunum að koma í sund einstaka sinnum. Reynt er að kenna þeim að synda en mest fer nú tíminn í leik. Eldri börnin hafa líka farið í safnaferðir með styrktarforeldrum sem koma í heimsókn. 

Við héldum veislu einn daginn með börnum og starfsfólki og matreiddur var uppáhaldsréttur barnanna, foufou, sem er mauk úr enjam-rótinni, ekki mjög bragðsterkt, og kjúklingabitar og velkrydduð grænmetissósa með. Börnin borðuðu af mikilli ánægju, sumir piltanna fengu sér þrisvar á diskinn. Enjam er stór rótarávöxtur sem vex hratt en er sagður fullur af næringarefnum. Hann er afhýddur, soðinn og síðan marinn í mauk í stórum mortélum. Þetta er mikil vinna en allir tóku þátt og starfinu breytt í skemmtun. Eftir máltíðina var að sjálfsögðu dansað og sungið og taktur sleginn smástund áður en fólk síðan fékk sér eftirmiddagslúr að loknu uppvaski með þátttöku barnanna.

 

13. janúar er almennur frídagur í Togó. Þann dag kom hópur strengjabrúðuleikara í heimsókn í boði Togódeildar SPES. Vakti það mikla ánægju ekki hvað síst vegna þess að þau fengu sjálf að spreyta sig með brúðurnar og einnig dansa við stórar brúður. Á eftir fengu þau jógurtís og kökur. Svo lauk öllu með almennum söng og dansi undir trommuslætti nokkurra drengja ásamt Kokou (leikjastjóranum) og Gabriel (bílstjóra og vini). Margir meðlimir Togódeildar SPES komu í heimsókn en þeir eru nú orðnir formlega 80 talsins. Nýr formaður er dr Ashira Assih mannfræðingur. 

Reyndar koma meðlimir SPES oft í heimsókn færandi hendi, einnig ýmsir aðrir gestir háir sem lágir sem gefa matvöru, klæði og fleira eftir efnum. Ýmist er þetta fólk sem er að kynna sér starfsemina t.d. frá yfirvöldum og félagasamtökum, og svo ýmsir vinir sem njóta þess að fá að taka dálítinn þátt í starfinu.

Stjórn SPES Togo vinnur gríðarlegt starf við skipulag og eftirlit með heimilunum. Það er allt sjálfboðavinna eins og allt starf SPES fólks. Eingöngu starfsfólk sjálfra heimilinna og byggingamennirnir fá laun.

 

Í Kpalimé voru börnin 17 í janúar en síðan hafa 4 bæst við. Þau eru öll ung, 2 þau elst eru 5 ára en þau yngstu um eins árs. Þar standa yfir nokkrar byggingarframkvæmdir og starfið með börnunum erfitt þar sem lóðin er ófrágengin. Þetta er stór lóð og þau rækta mikið t.d. maís sem þau geta deilt með heimilinu í Lomé og svo alls kyns ávexti: banana, mangó, papaya og ananas.

Það hefur meira borið á malaríu meðal barnanna í Kpalimé en í Lomé e.t.v. vegna gróðursins sem er mikill bæði villtur og ræktaður. Loftslag er þó betra, þurrara, en í Lomé. Börn og starfsfólk þarna tóku okkur líka fagnandi. Börnin höfðu nánast engin leikföng og voru tilbreytingunni feginn. Atsou sá elsti greip hönd Njarðar og sagði: "Þú ert minn Papí. Vertu ekkert að skipta þér af smábörnunum". Sem betur fer gátum við bætt svolítið úr leikfangaskorti og nú er sennilega komið nóg eftir að bent var á vandamálið. Einnig hefur verið veitt fé sérstaklega til að bæta leiksvæði fyrir börnin.

Pascal Tchini, sem er frá Kpalimé en starfar sem arkitekt og skipulagsfræðingur í Lomé, er umsjónarmaður með starfinu á þessu heimili og mikill vinur barnanna. Hann sagði okkur að starfsfólkinu þætti vinnan mjög erfið en ánægjuleg. Mikil ánægja hefur ríkt í Kpalimé með starf SPES þar og borgarstjórinn er vinur og lætur sér annt umverkefnið. Ekki mun ánægjan minnka með haustinu þegar leikskólinn tekur til starfa. Hann hefur SPES byggt fyrir gjafafé frá íslenskum hjónum, en bærinn mun reka hann. Okkar börn munu svo sækja þennan skóla ásamt öðrum litlum börnum frá Kpalimé enda er nýi skólinn ekki langt frá okkar heimili.

 

Ef mögulegt er viljum við að fjölga börnum á heimilunum á þessu ári. Bæta við 4-5 börnum í Lomé og 10 í Kpalimé. Það getum við ekki fyrr en við höfum fundið styrktarforeldra og tryggt framfærslu þeirra. Við biðjum því alla þá sem geta lagt okkur lið að hafa samband. Framfærsla barns er 77 EUR á mánuði. Á núverandi gengi kostar það því 6.500 ISK ef 2 fjölskyldur taka að sér barn saman, 4.400 ISK ef fjölskyldurnar eru 3 en rúmar 13 þúsund krónur ef ein fjölskylda tekur að sér barn. Íslenskir styrktarforeldrar sjá nú um 47 barnanna, franskir og belgískir.

styrktarforeldrar um 55 en enskir, austurískir, grískir og tyrkneskir sjá einnig um börn. Alls voru börnin á heimilum SPES 114 í janúar,nú 118. Stöðugt er leitað til okkar með vegalaus fátæk börn sem þurfa heimili og umönnun. 

Bera Þórisdóttir

Pin It