Kæru SPES-vinir:

Hér eru nokkrar fréttir frá Tógó.
Börnin kjósa formenn og umsjónarmenn svefnhýsa
 
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp á heimil SPES í Lomé, að öll börn á skólaaldri kjósa úr sínum hópi formenn og varaformenn til tveggja ára, annars vegar fyrir drengi og hins vegar fyrir stúlkur. Bregðist þeir hlutverki sínu má kalla saman nýjan kosningafund.
Þetta er gert til að auka ábyrgð barnanna og gefa þeim jafnframt kost á að ráða ráðum sínum sjálf
að nokkru leyti.
Úr hópi stúlkna voru kosnar Viviane Wilson (11 ára) formaður og Lucie Hounsiga (11 ára) varaformaður.
Úr hópi drengja voru kosnir Komlavi Nana (11 ára) formaður og Richard Mensah (12 ára) varaformaður.
Öll hafa þau staðið sig vel í skóla og Lucie og Richard eru ein komin í miðskóla (College).
Hins vegar hefur Richard þótt vera nokkuð uppreisnargjarn.
Hlutverk formanna er:
1)  Að fylgjast með almennri umgengni og hvernig börnin fara með föt, skó, skólatöskur, bækur, stílabækur, penna, liti, strokleður o.s.frv.;
2)  að börnin búi um rúmið sitt og taki til í herbergi sínu (í samráði við umsjónarmann svefnhýsis);
3) klæðnaði og þrifnaði;
4) að börnin sýni öðrum virðingu og kurteisi, öðrum börnum, fóstrum, „frændum“ (karlmönnum sem starfa á heimilinu),forstöðukonu, aðstoðarforstjóra, barnalækni, sálfræðingi, leiðbeinendum við heimanám, gestum;
5) að börnin valdi engum skemmdum, hvorki í svefnhýsi, matsal eða annars staðar.
6) Formaður tekur þátt í að skipuleggja ferðir barnanna, svo sem í skólafríum.
7) Mælir með umbun fyrir góða hegðun og árangur í skóla.
8) Mælir með refsingum fyrir óhlýðni og/eða skemmdir. 

Umsjónarmenn svefnhýsa voru kosnir:
1. Akodou (stúlkur 2-5 ára) Jusine Welike og Ayawa Sowou
2. Adouba (drengir 3-6 ára) David Zoglo og Julien Gambiglo
3. N‘ti (drengir 6-12 ára) Félix Tronou og Patrice Hounsiga
4. Blafogbe (stúlkur 6-12 ára) Martha Nana og Elise Sowou
Hlutverk umsjónarmanna er að fylgjast með allri umgengni og þrifnaði, ennfremur að svefntími sé virtur.
Umsjónarmenn mæla með umbun og/eða refsingum eftir atvikum.
Er vonast til að þessi nýbreytni auki ábyrgð og bæti almenna hegðun.

Skólastarf
Ecole Primaire Publique de Kélégougan – almennur skóli hverfisins.
Helsta áhyggjuefni hefur verið óheyrilegur fjöldi í bekkjum og áhrif þess á námsárangur, enda voru allt að 146 nemendur í bekk. Þess vegna hefur SPES byggt níu nýjar skólastofur, lagt rafmagn og gefið ný húsgögn. Þetta hefur nú skilað sér í auknum fjölda kennara, sem skólamálaráðherra Tógó hefur staðið fyrir að okkar beiðni.
Nú eru ekki fleiri en 46 til 72 í bekk. Það þykir okkur enn of mikið, en er samt mikil framför, og árangur barna okkar hefur batnað nokkuð. Þetta hefur einnig í för með sér að börnum SPES er dreift í fleiri bekkjardeildir og umgangast því fleiri börn utan heimilisins.
Við vonum að fleiri kennarar og bekkjardeildir skili betri námsárangri fyrir alla nemendur skólans.

Skýrsla sálfræðingsins
Barnasálfræðingur okkar, Rissikatou Salifou-Ouiro-Sama, hefur nýlega sent okkur skýrslu.
Þar greinir hún frá hegðunarvandamálum og tilgreinir hugsanlegar lausnir.
Tvö dæmi eru um ofvirkni og athyglisbrest, sem leiðir af sér óhlýðni og skort á aga.
Einn drengur sýnir ákveðin einkenni sálrænna vandamála og getur t.d. ekki stjórnað þvagi á eðlilegan hátt,og verður hann sendur í frekari rannsókn hjá barnalækninum, dr. Assismadi, sem ber ábyrgð á líkamlegu heilsufari barnanna.
Að öðru leyti eru börnin við góða heilsu, þótt nokkuð hafi verið um lasleika, eins og búast má við
í svo stórum barnahóp – svo sem hálsbólgu, magaverkjum, kýli, malaríu, eyrnabólgu, hlaupabólu, 
meiðslum á hné og framhandlegg.
 
Styrktarforeldra vantar
SPES vantar fleiri styrktarforeldra. Eitt barn sem áður átti íslenskra styrktarforeldra, fær nú greiðslur úr almennum sjóði.
Okkur vantar því styrktarforeldra fyrir það. Og einnig til þess að geta fjölgað börnum í Kpalimé.
Okkur er ljóst að þetta er orðið dýrt vegna lágs gengis krónunar, um 14.000.
Við stingum því upp á því að fleiri en einn sé um barn, t.d. tvenn vinahjón, systkin eða vinir,
en ekki fleiri en fjórir einstaklingar um hvert barn.
Við biðjum því um aðstoð að finna nýja styrktarforeldra.
Hafið samband við Beru, gjaldkera Íslandsdeildar SPES This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it." style="font-family: Arial, Helvetica, sans-serif; text-align: left; ">This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sími 561 2366 & 692 1286.  
Þar sem ég hef nú látið af formennsku í SPES International, vil ég nota þetta tækifæri til að þakka ykkur öllum fyrir stuðning við þetta góða málefni.
Ég vona að þið haldið áfram að efla svo brýnt og gagnlegt starf.

Með bestu kveðjum,
Njörður.

Pin It