LOMÉ
Heimili SPES í Kélégougan í Lomé er fullbyggt og þar dvelja nú 94 börn, en geta orðið 108, með því að elstu börnin séu aðeins fjögur í herbergi.
Við höfum ákveðið að staldra nú við og taka ekki fleiri börn að sinni, heldur hlúa betur að þeim sem fyrir eru.
Öll börnin eru við góða heilsu, fá góða næringu og almenna umönnun. Þau hafa nú betri aðgang að leikföngum, bókum og ýmiss konar spilum sem heimilinu hafa áskotnast. Fyrir rúmu ári var ungur maður, Koukou að nafni, ráðinn að heimilinu til að segja börnunum sögur og kenna þeim söngva og leiki. Hann gegnir nú fullu starfi og hefur einnig yfirumsjón með leikaðstöðu barnanna og hefur það reynst afar heilladrjúgt. 
Elstu börnin eru að nálgast gelgjuskeið og því fylgja ný vandamál. Hjá nokkrum þeirra hefur komið fram ákveðinn hegðunarvandi sem þarf að taka á. Undan fáeinum hefur verið kvartað í skólanum vegna óknytta, en einkum er þar um að ræða sex drengi. Við teljum að sumpart stafi þetta af því að þau þurfi nú öllu meira frelsi en áður, ekki bara fara í skólann og heim í þorpið, heldur fái þau meira lífsfrelsi til að læra ábyrgð.
Þau hafa farið í einum hóp í skólann í fylgd fóstru, og þeim elstu finnst það hálf auðmýkjandi. Þau eiga því að fá að fara ein og á eigin ábyrgð.
Nokkurt óöryggi kom upp eftir að við rákum eina fóstruna fyrir hörku og bönnuðum með öllu að börnin væru barin til refsingar. Það er eins og skort hafi hugmyndaflug. Við bentum á að yngri börnin gætu farið í skammarkrók og hin eldri misst ákveðin fríðindi. T.d. hafa tveir strákar orðið að sitja heima þegar hin fóru í sundlaug – og eins má fá þeim óþekku verkefni að vinna, þegar önnur leika sér. Þá höfum við bent á örvun til þeirra sem hegða sér vel, eins konar verðlaun, - og sömuleiðis þegar börnin taka sig á – þá skuli þau fá umbun. Við teljum það betri leið til bættrar hegðunar en refsingar.
Við veittum verðlaun þeim sem höfðu staðið sig best á miðsvetrarprófum í skólanum. Þrjú fengu armbandsúr og tvö nýjar skólatöskur.
Þá hefur nú verið skipulagt betur en áður að ákveðin fóstra sé „mamma“ ákveðinna barna, og skulu þau sækja til hennar hlýju og ástúð og sýna henni hlýðni. Við höfum ítrekað að skipta beri börnunum meira í smærri hópa eftir aldri og áhugamálum. Og loks viljum við að nú verði fundnar vinafjölskyldur þar sem elstu börnin geti dvalist t.d. um helgi.
SKÓLINN
Við höfum byggt tvö ný hús fyrir barnaskólann í Kélégougan og afhentum þau formlega 6. febrúar, að viðstöddum skólamálaráðherra grunnmenntunar, dr. Yves Madow Nagou. Þar eru níu skólastofur fullbúnar húsgögnum. Við áttum tvo fundi með ráðherranum og kvörtuðum undan því að alltof margir nemendur væru í bekkjunum, enda næðist aldrei góður námsárangur með því móti. Í fyrsta bekk voru 146 nemendur um einn kennara. Vegna þessara nýju húsa mæltumst við til þess að kennurum yrði fjölgað. Hann lofaði því, og nú þegar hafa þrír kennarar tekið til starfa, aðrir þrír koma næsta haust – og eins hefur komið til álita að SPES greiddi laun þriggja kennara til viðbótar.  
KPALIMÉ
Nýtt heimili SPES var vígt 14. febrúar í Kpalimé, um 60.000 manna bæ um 120 kílómetrum norðvestur af Lomé. Þar höfum við unnið náið með borgarstjóranum Victor Samtou sem hefur verið mjög áhugasamur og duglegur og er orðinn mikill vinur okkar. Þrjú hús hafa verið reist, tvö svefnhýsi og eldhús+matsalir til framtíðar, en það hús verður fyrst í stað einnig notað fyrir skrifstofu forstöðukonu og til afnota fyrir starfsfólk. Einnig lítið hús fyrir varðmann við hliðið að þorpinu. Sömu teikningar eru notaðar og í Lomé og öll húsin alveg eins og þar. Svefnhýsin eru reist fyrir styrk frá Glitni sem okkur barst  í tvennu lagi 2006 og 2007 - og þriðja húsið fyrir gjöf frá íslenskum hjónum. 
Starfsfólk hefur verið ráðið og er tekið til starfa.  Forstöðukonan heitir Berthe Amedzro, en auk hennar eru fjórar fóstrur, eldabuska, vörður og bílstjóri.  Keypt var annað Toyota rúgbrauð fyrir nýja heimilið, enda er það aðeins fyrir utan sjálfan bæinn og því nauðsyn á bíl til flutninga og fyrir aðdrætti. Fimm börn eru komin á heimilið og nú verður þeim smám saman fjölgað – og því verður þörf fyrir nýja styrktarforeldra.
Vígslan var hátíðleg að viðstöddu fjölmenni. Ræður fluttu borgarstjórinn í Kpalimé, héraðsstórinn í Kloto-héraði (stórt umdæmi umhverfis Kpalimé), ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis Tógó, auk formanns SPES. Söng- og dansflokkar skemmtu – og hópur barna okkar í Lomé kom til að dansa og syngja. 
Við vonum að starfið fari vel af stað.
Heimisfang er: SPES, 260 B.P. 459, Kpalimé, Tógó.
Við munum byggja nýjan leikskóla í Kpalimé, en þar er enginn slíkur.