Kæru SPES-vinir, hér koma nokkrar fréttir frá Tógó
Þriðja svefnhýsið sem Styrktarsjóður Baugs kostar og hefur greitt að fullu (6 milljónir)
er nú fullbyggt og tilbúið til notkunar. Verið er að afla nauðsynlegra húsgagna.
Nýlega bættust 4 börn í hópinn, tvö hafa fengið franska styrktarforeldra og tvö íslenska.
Þau eru því orðin 72 talsins. Um 10 börnum verður bætt við á þessu ári.
4 nýjar fóstrur verða ráðnar fljótlega, og ákveðið var á aðalfundi að efla menntun allra fóstranna.
Í Kpalimé hefur nú verið jafnaður jarðvegur fyrir fyrstu húsin og vonast er til að fljótlega verði hafist handa við fyrsta svefnhúsið ásamt öðru húsi fyrir eldhús og matsali. Fé er þegar til fyrir þessu og svefnhúsi nr. 2. Einungis stendur á arkitektinum að raða húsunum á lóðina.
Hópur reglusystkina í Alþjóða Sam-Frímúrarareglunni í Cameroun vill hefja starfsemi SPES þar undir forystu Jean Ditope Limdoume, sem gegnir sams konar embætti og ríkisendurskoðandi hér. Undirbúningur er vandaður og við Claude Voileau þekkjum þetta fólk.
Aðalfundur fól fulltrúaráðinu að ákveða um framhaldið á næsta fundi þess sem verður í París 23. september.
Skoppa og Skrítla
Leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir munu fara til Tógó í september ásamt leikstjóra og tökumönnum til að gera sjónvarpsþátt um för þeirra. Einnig fara nokkrir styrktarforeldrar héðan. Flogið verður með Air France 25. september og dvalist í eina viku. Ég mun einnig fara.

Bestu kveðjur, Njörður