Í skólanum eru 60-80 börn í hverjum bekk, og það er auðvitað alltof mikill fjöldi. Okkar var sagt að borgin kosti byggingar en ríkið sjái um kennara. Og að með nýjum kennslustofum verði bætt við kennurum. Því ákváðum við að kosta byggingu nýs húss á skólalóðinni, með tveimur kennslustofum og minni stofu að auki fyrir tölvunotkun í framtíðinni. Húsið er byggt þannig að hægt er að bæta hæð ofan á síðar, ef verkast vill. Við vonum að með tveimur nýjum kennurum verði hægt að fækka eitthvað í bekkjunum. Allt hefur þetta verið gert í samráði við skólastýruna og kennara skólans, sem hafa verið spurð um hvað kæmi að bestu notum.
Þetta hús var svo afhent formlega 19. febrúar, þá fullfrágengið að utan, en innréttingum ekki lokið. Þegar við mættum til þeirrar athafnar urðum við undrandi, því að allir nemendur skólans voru saman komnir úti í skólagarðinum ásamt foreldrum, kennurum, skólastýru, hverfishöfðingjanum og fulltrúum frá skólayfirvöldum. Börnin sungu og dönsuðu, ræður voru fluttar, og á eftir var boðið upp á svaladrykki. Þetta var mikil hátíð og ánægjuleg, og í kvöldfréttum sjónvarps var sagt ítarlega frá athöfninni. Okkar var tjáð að þetta væri í fyrsta skipti sem hjálparsamtök af okkar tagi styrktu almennan skóla í Lomé.
Við vonum að þetta hús verði til að bæta úr brýnni þörf að nokkru, en skólinn býr við mikinn varna. Einn er sá að forfallakennarar eru engir. Ef kennari veikist, hleypur enginn í skarðið. Þannig geta börnin verið kennaralaus í heila viku, ef svo atvikast. Þá koma leiðbeinendur barnanna okkar við heinmanám að miklu gagni.

NPN