Nemendur í Hagaskóla efndu til söfnunar til líknarmála 7. mars sl. og er það í þriðja sinn. Þetta var markaðs- og skemmtunardagur og kom fjölmenni til unglinganna.

Þeir höfðu ákveðið að skipta söfnuninni að þessu sinni jafnt á milli Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og SPES barnahjálpar. Í hlut hvors komu kr. 909.000 – hvorki meira né minna! Þetta er stórkostlegur árangur og sýnir mikinn samhug og samkennd unglinganna í Vesturbænum. Þeir lögðu hart að sér, unnu kappsamlega og mega vera stoltir af ótrúlegum árangri. Páll Óskar mætti og tók lagið og minnti á það hvað það er mikilvægt að vera góð við hvert annað.

SPES barnahjálp þakkar einstaklega höfðinglegt framlag.
Það er fallegt hjá þeim að hugsa þannig til vegalausra barna í Tógó.