Alltof snemma, alltof fljótt er Gísli Benediktsson horfinn.

Gisli Benediktson
Við minnumst hans með virðingu og þakklæti fyrir vináttu og samstarf í þágu vegalausra barna í Tógó, þar sem unnið er samkvæmt kjörorðinu: Sá sem bjargar einu barni, bjargar mannkyninu. Það er rétt, því ef hver og einn tekur að sér eitt vegalaust barn, eru öll börn hólpin. Gísli vissi vel, að með okkar starfi tekst ekki að bjarga nema fáeinum börnum, þótt þau séu nú orðin 176, en, eins og Þorsteinn frá Hamri segir: „Í mannlegri viðleitni / munar um lítið handtak.“

Gísli gegndi formennsku í Íslandsdeild SPES barnahjálpar af einstakri alúð og trúmennsku, samfara ljúfmennsku og ákveðni, og lagði mikla vinnu í starfið. Allt sem hann sagði og ákvað, stóð ævinlega eins og stafur á bók. Með viðmóti sínu aflaði hann sér vináttu og trausts allra þeirra sem hann starfaði með. Þau Eva María fóru til Tógó til að fylgjast með starfinu þar og sóttu fundi heildarsamtakanna í París, allt á eigin kostnað, enda ófrávíkjanleg regla hjá SPES, að allt skuli unnið í sjálfboðavinnu og enginn ferðakostnaður greiddur. Þáttur þeirra hjóna í þessu starfi er ómetanlegur og verður aldrei fullþakkaður.

Við fráfall hans ríkir sorg á heimilunum tveimur í Lomé og Kpalimé og meðal vina hans í Tógó, Frakklandi, Belgíu, Austurríki og reyndar víðar.

Við kveðjum Gísla með sárum söknuði.
Evu Maríu og fjöldskyldunni sendum við hugheilar samúðarkveðjur.