Á tveimur heimilum SPES í Tógó búa nú 160 börn við gott atlæti (júlí 2013). 54 þeirra eiga íslenska styrktarforeldra, önnur eiga styrktarforeldra í Frakklandi,Belgíu, Austurríki, Bretlandi, Tógó og fleiri löndum. Það er pláss fyrir fleiri börn en styrktarforeldra vantar. (Framfærsla barns kostar 77€ á mánuði , 12.000,- 6.000 eða 4.000 ISK t.d. ef fleiri sameinast um barn). Börnin búa í fallegum velhirtum húsum, fá næringaríka fæðu, læknisþjónustu og menntun. Reynt er að veita þeim sem best og ástríkast uppeldi eins og hægt er á svo stórum heimilum.

Börnin eru á ábyrgð SPES til 18 ára en gert er ráð fyrir að þeim sé hjálpað út í lífið og til framhaldsmenntunar eftir getu og vilja. Til þess var stofnaður Framtíðar- og menntunarsjóður sem varðveittur er í Tógó. 10€ af styrktargjaldinu í hverjum mánuði er lagt í þennan sjóð. Á heimilunum í Lomé og Kpalimé, raðast 15 börn á ýmsum aldri saman í hóp og eiga sér sína aðalmömmu, síðan dreifast hóparnir á nokkur svefnhýsi. Elstu börnin 22 sem eru orðin 13 – 16 ára fluttu til Kpalimé fyrir tveimur árum og búa þar í tveimur hópum. Piltarnir eru nú í sumar að flytja úr leiguhúsi í nýtt heimili sem SPES hefur byggt og er við hliðina á aðalheimilinu. Stúlkurnar hafa búið í einu svefnhýsanna á aðalheimilinu og munu verða þar þangað til hús fyrir þær hefur verið reist í tengslum við heimili piltanna.

Í Lomé hefur SPES fengið góða lóð ekki langt frá heimili SPES til að reisa lítið unglingaheimili. Almennt er heilsa barnanna góð, barnalæknir og sálfræðingur veita þeim reglubundna þjónustu. Þau eru bólusett við helstu sjúkdómum eins og við þekkjum en því miður hefur engin vörn fundist við malaríu sem er verulegt vandamál í Tógó sem og í öðrum Afríkulöndum. Börnunum eru gefin lyf um leið og ljóst er að þau hafa malaríu en mjög mörg hafa „króniska“ malaríu og veikjast aftur og aftur. Augnsjúkdómar eru einnig algengir og nauðsynlegt að fylgjast vel með. Börnin ganga í skóla í hverfinu þar sem þau búa enda lögð áhersla á að þau alist upp á Tógóska vísu. Aðeins tvö fara í einkaskóla annað vegna heyrnaleysis, hitt vegna alvarlegrar ofvirkni.

SPES hefur hins vegar stutt vel við hina almennu skóla, byggt skólastofur, gefið mikið af kennslugögnum sem alltaf er skortur á, og nú síðast fengið leyfi til að kosta 3 forfallakennara í Lomé. Þess má geta að líkamlegar refsingar voru bannaðar í skólum landsins fyrir allmörgum árum, SPEShefur aldrei liðið slíkar refsingar. Það er ekki skólaskylda í Tógó en hinsvegar fræðsluskylda og skólinn því ókeypis. Samt treysta margir foreldrar sér ekki til eða hirða ekki um að senda börn sín í skóla og oft eru þau látin gæta yngri systkina meðan foreldrar afla viðurværis. Mikið vantar á að nógu margir kennarar séu ráðnir við skólana og hópar því oft afar stórir á okkar mælikvarða. Þó hefur þetta lagast mjög mikið í hverfisskóla okkar í Lomé eftirað SPES færði þeim að gjöf 9 skólastofur. Samt hafa SPES-foreldrar áhyggjur af framgangi barnanna í skóla og reynt er að veita þeim sem bestan stuðning. Mömmurnar hjálpa með heimanám en auk þess koma sérstakir heimakennarar 2-3 íviku í því skyni. Börnin eru ýmist alveg munaðarlaus eða eiga eitt foreldri sem hefur enga möguleika til að sjá barninu farboða.

Í Tógó, eins og á Íslandi, hjálpa nákomnir ættingjar til en stundum er það þeim um megn. Börnin sem koma á heimili SPES koma þangað með samþykki hins opinbera og SPES ber ábyrgð á þeim til 18 ára aldurs. Reynt er að halda sambandi við ættingja eða finna hverju barni sérstaka „vini“ sem geta heimsótt þau einstaka sinnum og þau einnig farið í heimsókn. Einn laugardagur í mánuði er tileinkaður slíkum heimsóknum og, að allra yngstu börnunum frátöldum, fara öll börnin og dvelja hjá vinum eða ættingjum nokkra daga í sumarfríinu, til þess að kynnast venjulegum heimilum og öðru fólki. Allt undir eftirliti SPES og á kostnað samtakanna. Það má því segja að starfið gangi mjög vel en eins og sagt var í upphafi þá vantar fleiri stuðningsforeldra svo við getum veitt fleiri vegalausum börnum skjól.