Fimmtán elstu börnin (12-14 ára) fluttu frá Lomé til Kpalimé nú í haust. 8 piltar búa nú í húsi sem SPES tók á leigu nálægt aðalheimilinu í Kpalimé og ekki langt frá miðskólanum þar. Á aðalheimilinu búa svo núna 6 unglingsstúlkur. Báðir hóparnir hafa sérstaka tilsjónarmenn. Þessi flutningur á að gera okkur mögulegt að veita unglingunum betra uppeldi við þeirra hæfi um leið og þau fá meira sjálfstæði. Í skólanum eru bekkirnir ekki eins fjölmennir og í Lomé. Kpalimé býður upp á ýmsa menntunarmöguleika. SPES hefur áform um að byggja minni heimili fyrir unglinga bæði í Kpalimé og í Lomé.

SPES varð fyrir tveimur áföllum í sumar og haust. Dr Assimadi, barnalæknirinn sem hafði veitt SPES aðstoð sína frá upphafi varð bráðkvaddur. Nokkrum vikum síðar lést lítil stúlka, Deborah De Souza, 3 ára. Deborah átti við vanheilsu að stríða frá upphafi, gat ekki gengið óstudd og ekki talað, en var glöð og naut veru sinna hjá SPES. Styrktarforeldrar hennar voru franskir.

Á heimilinu í Lomé dvöldu í sumar 2 ungar konur, Anna Svava Knútsdóttir og Ásta Briem. Þær unnu sem sjálfboðaliðar af miklum dugnaði auk þess sem þær unnu við að gera stuttmynd um líf barnanna.

SPES Tógó hefur ákveðið að breyta skipulagi á heimilinu í Lomé. Allir starfsmenn þurfa nú að skrifa undir samþykki við nýjar starfsreglur. Þetta er m.a. gert vegna missættis sem orðið hefur með nokkrum fóstrum. Einnig felur þetta í sér breytta samninga við barnalækni og sálfræðing.

 • Á tónleikum í tilefni 75 ára afmælis Njarðar í júní söfnuðust kr. 450.000.
 • Unglingadeild Álftamýrarskóla hélt markað í nóvember og safnaði kr. 250.000 fyrir SPES.
 • Þá söfnuðust kr. 140.000 í maraþonhlaupi Íslandsbanka.
 • Tveir síðastnefndu styrkirnir ganga til miðskólans í Kpalimé.
  Sótt er til Seðlabanka um sérstaka yfirfærslu EUR 2.400 vegna þessa.

 • SPES Ísland hefur á þessu ári sent frá sér EUR 80.000.
 • Þar af eru 40.000 frá styrktarforeldrum.
  Auk þess greiða styrktarforeldrar fjögurra barna beint til Parísar.

 • Þrjú börn vantar nú styrktarforeldra að öllu leyti eða að hluta.
 • Með þeim er nú greitt af almennu söfnunarfé. Hreyfing hefur verið á íslenskum styrktarforeldrum og e.t.v. eru tvö önnur börn í hættu. Á heimilunum eru nú alls 138 börn. 48 þeirra hafa íslenska styrktarforeldra.

Við getum ekki bætt við börnum nema við fáum fyrst nýja styrktarforeldra.

Það er mjög brýnt mál. SPES ber ábyrgð á börnunum þar til þau eru 18 ára og skuldbindur sig til að undirbúa þau fyrir lífið eins vel og kostur er.

Bera og Njörður fara til Tógó 2. janúar og geta tekið með sér smápakka ef óskað er.
Með þeim fer Hildur dóttir þeirra og Sigurður maður hennar.
Einnig slást í för tvær stúlkur sem ætla að vinna sjálfboðastörf í einn mánuð.
Þær kunna frönsku og kosta sig að öllu leyti sjálfar.

SPES þakkar stuðningsfólki sínu innilega fyrir stuðning á liðnu ári og óskar þeim velfarnaðar.
Með hlýjum kveðjum, Stjórn SPES –alþjóðlegrar barnahjálpar.