COVID-19 hefur haft mikil áhrif á líf fólks í Tógó sem annars staðar. Faraldurinn virðist nú vera aðeins í rénum og skólarnir, sem hafa verið lokaðir síðan 23. mars, boðuðu þá nemendur, sem eiga að fara í samræmd próf á þessu ári, aftur í skólana þann 15. júní. Þetta eru tveir árgangar grunnskóla og einn árgangur framhaldsskóla. Aðrir nemendur eru áfram í sóttkví eða sendir í frí.
Þetta hefur verið erfiður tími fyrir bæði börn og starfsfólk SPES en börnin voru lokuð innan veggja þorpanna í 3 mánuði. Starfsfólkið dvaldi á heimilunum viku og viku í senn og yfirgáfu fjölskyldur sínar á meðan. Flókið en skilvirkt umgengiskerfi var sett upp, börnin þjálfuð í handþvotti og öðrum hreinlætisvenjum. Starfsfólkið tók að sér kennslu eftir bestu getu og fylgdu heimagerðum stundatöflum, auk þess sem þau höfðu ofan af fyrir börnunum ýmist við heimilisstörf eða afþreyingu. Óvenju margir vinir færðu heimilunum hreinlætisvörur og matargjafir. King Mensah, afar vinsæll Tógóskur söngvari, kom á heimilið í Lomé með hreinlætisvörur og hélt smátónleika í leiðinni. Allir báru grímur við það tækifæri, og það hefur verið skylda utan heimilanna allan tímann og þegar gesti ber að garði.
Ekki er vitað til þess að neinn á heimilunum eða sem tengjast þeim hafi veikst.